Andvari - 01.01.1927, Blaðsíða 18
16
Bjarni Jónsson frá Vogi
Andvari
gerðir tveir kostir, að taka annaðhvort frumvarpið ó-
breytt; ella ekkert.
Þessi herfilega ósvífni Albertís kom alveg' í opna
skjöldu. Þingflokkarnir stóðu fjandsamlegir hvor öðrum,
úrræðalausir. »Allt dró slafr af Hafri*. Alþingi samþykti
Albertís-frumvarpið óbreytt.
Aðfarir þessar vöktu þegar mikla andúð í Reykjavík.
— Síðla þings, í ágústmánuði 1902, stofnaði Einar
Benediktsson til mótmælafundar í Reykjavík og hafði
þar atbeina ]óns yfirdómara Jenssonar og nokkurra
annarra röskra manna. En ekki var lát á þingflokkunum,
svo að vart yrði.
Bjarni var þá á ferð í Austfjörðum, er þessi tíðindi
gerðust. En er suður kom, gekk hann þegar til fylgis
hreyfing þessari. Vóru nú ýmsar stefnur áttar meðal
þeirra manna, er risu gegn »ríkisráðsákvæðinu« og
halda vildu fast við eldri kröfur Islendinga. Þing var
rofið vegna samþyktar ins nýja stjórnarskrár-frumvarps,
og skyldi almennar kosningar fara fram vorið eftir.
Þótti því meiri nauðsyn á að hefja snarpan andróður
gegn inni nýju »uppgjöf«, en auðsætt, að til lítils mundi
duga, nema flokkurinn hefði nokkurn blaðakost.1) Hóf-
ust þá tvö blöð um áramótin, »Landvörn«, er flokkurinn
var við kendur síðan, og »Ingólfur«. »Landvörn« kom
út við og við til vors, alls tíu blöð, en »Ingólfur« varð
langlífari og jafnan síðan höfuðblað flokksins. Hafði
Bjarni á hendi ritstjórn »Ingólfs« tvö fyrstu árin, og
ritaði í blaðið jafnan síðan, meðan það var í höndum
1) Einar Benediktsson gaf út snjallan ritling um haustið, er
nefndist: „Nývaltýskan og landsréttindin", og Jón Jensson annan
um veturinn: „Uppgjöf landsréttindanna, samþykt á alþingi 1902“.
Vöktu rit þessi mikla athygli.