Andvari - 01.01.1927, Síða 121
Andvari
Þættir úr menningarsögu Vestmannaeyja
119
Fýlabyggð, -ar, -ir, kvk., grastær, hvannstóð og syllur
í björgunum, þar sem fýllinn hefir aðsetur sitt. Fýllinn
byggir alla hámrana á Heimaeynni og uppi í grasinu í
úteyjunum, þar sem fje gengur ekki, og utan í þeim. í
allflestum úteyjunum er útiganga góð fyrir sauðfje, en í
sumum úteyjum, svo sem Brandi og Smáeyjum, eru að
eins lömb látin ganga á veturna, um fýlabyggðina, en
allt af varð að sækja þau fyrir sumarmál, því að annars
tók fýllinn þar illa heima. Lundinn byggir hins vegar gras-
brekkurnar í fjöllunum, þar sem fjeð rásar um, en í
graslausum standbjörgunum, sem vita að sjó, heldur
svartfuglinn sig, en rillan, svo er ritan kölluð í Vest-
mannaeyjum, byggir útskefjarnar í berginu og smá-
skvompur og kóra, þar sem brimið í stórróti sleikir
innan. Hún er olnboga-skel hjá bjargfuglunum. í nokkr-
um úteyjum verpir og skrofa og sæsvala. Þær grafa
sjer holur líkt og lundinn, en eru aldrei veiddar, enda
sjást þær aldrei, nema á nóttunni, þegar annar fugl er
búinn að taka á sig náðir. Eiga þeir, sem óvanir
eru að vera í úteyjum, oft bágt með að sofa á nóttunni
fyrir hávaðanum og gauraganginum í sæsvölunni og skrof-
unni, og þegar fer að dimma nótt, gera þær margan
myrkfælinn, er þær, einkum sæsvalan, koma fljúgandi
að í myrkrinu á síðsumri; má oft taka þær með hönd-
unum. Var það stundum, að veiðimennirnir gerðu sjer
það að leik að taka lifandi sæsvölur, svo að tugum skifti,
og fleygja inn í veiðikofann, þar sem aðrir sváfu, og
vöknuðu þeir þá við vondan draum, og varð uppi fót-
ur og fit, unz svölunni varð komið út aftur. Sæsvöluegg
voru eftirsótt handa söfnum.
krumur, -s, -ar, kk., staður í björgum, þar sem fýlL
inn verpir mjög þjett. Komast í stóran eða mikinn
krum, hlakkaði í veiðimanninum. -