Æskan - 01.01.1975, Blaðsíða 40
BARNáBLASID ÆSB&N
— ÓIi, Óli. Það var rödd mömmu.
Óli kom þjótandi niður til hennar. —
Farðu með luktina út í fjós og lýstu
pabba þínum leiðina heim, og gakktu
með fram girðingunni, svo að þú villist
ekki.
Óli, sem var 13 ára, lét ekki segja
sér það tvisvar, tók luktina og fór. —
Ég vona að góður guð varðveiti dreng-
inn minn, svo hann villist ekki í vonda
veðrinu, sagði mamma.
— Það verður allt í lagi með Óla,
mamma mín, vertu bara róleg. Það var
hrein barnsrödd, sem sagði þessi hug-
hreystandi orð. Mamma leit við.
— Þú ert hughraust telpa, Disa mín,
sagði mamma og tók utan um Dísu, sem
var 9 ára.
Víkjum nú sögunni til Óla, sem komst
að lokum að fjósdyrunum. — Úff, þetta
er nú meira veðrið, sagði hann við
sjálfan sig. Hann gekk inn í fjósið. En
hvar var pabbi? Hann var ekki þarna.
Það var eins og einhver hefði gripið
um Óla. Hann stóð grafkyrr.
— Pabbi, pabbi, hvar ertu? hrópaði
hann. En ekkert svar. Pabbi var ekki
í fjósinu. Kannski var hann í hlöðunni.
Óli braust í gegnum veðrið, en í flýt-
inum gleymdi hann Ijósinu. Hann kom
að hlöðunni, þar var engin hreyfing.
Eflaust var hann í skemmunni. Óli gekk
að skemmunni, en þar var allt slökkt,
enginn pabbi. Það var eins og hjarta Óla
hætti að slá. Gljúfrin, pabbi, gljúfrin.
Þessi orð sungu í eyrum hans. Kannski
hann hafi villst og gengið fram af gil-
inu og drukknað í gljúfrunum? Hann
varð að bjarga pabba.
Óli þaut af stað. En hann komst varla
úr sporunum. Það var eins og veðrið
hefði versnað síðan áðan. Það var víst
rétt. Og ekki mundi hann komast langt
án Ijóssins. Hann varð að fara fyrst heim
og ná í Ijós. Hann staulaðist áfram, en
hvert átti hann að fara? í norður, suður,
austur eða vestur. Hann sá hvergi Ijós,
Litla hetjan
hann sá aðeins myrkur og hríð, það var
allt og sumt. En ekki mátti hann deyja
ráðalaus. Hann reyndi að komast áfram.
Tíminn var svo óralengi að líða. Kannski
var komin nótt — og allir búnir að
gleyma Óla.
Mamma, sem alltaf var svo góð, Dísa
systir, sem alltaf var svo glöð og kát,
og pabbi, sem kannski var dáinn. Hann
reyndi að staulast áfram.
En allt kom fyrir ekki. Hann komst
ekki áfram, eða svo fannst honum.
Hann festi annan fótinn og datt, reyndi
að rísa á fætur, en hann varð að gefast
upp. Hann megnaði ekki meir.
En víkjum nú sögunni aftur heim til
mömmu og Dísu.
— Mamma, vertu ekki svona áhyggju-
full. Þeir koma, það er ég viss um, sagði
Dísa.
Mamma leit upp frá blaðinu og gekk
út að glugganum. — Pabbi, kallaði hún
og þaut út að dyrunum. Pabbi kom inn
allur fannbarinn og kuldalegur. Hann
kyssti mömmu á kinnina.
— Hvar er drengurinn? spurði
mamma óróleg.
— Hvaða drengur? sagði pabbi og
svipur hans breyttist.
— Óli fór með luktina út í fjós til
að lýsa þér veginn heim. Sástu hvorki
hann né spor eftir hann með fram girð-
ingunni?
— Nei, ég kom við í skemmunni til
að gá, hvort allt væri í lagi, og gekk
því ekki hjá girðingunni, sagði pabbi.
— Guð minn góður, hvar er barnið
þá? sagði mamma æst.
— Vertu róleg, ég fer og leita að
Óia.
— Þú ferð ekki einn, það er nóg að
missa Óla, þó að ég missi þig ekki
líka, sagði mamma.
— Við getum ekki skilið Dísu eina
eftir, sagði pabbi og gekk til dyranna.
— Bíddu eftir mér, Dísa er svo dug-
leg, er það ekki, Dísa mín?
Dísa, sem stóð í dyrunum, var rauð
um augun af gráti. Hún hafði heyrt
samtal foreldra sinna. Hún kinkaði kolli.
— Jú, víst skal ég bíða, mamma mín,
ef þið verðið ekki lengi.
— Nei, barnið mitt, við verðum ekki
lengi, sagði mamma. Og svo voru þau
farin.
Dísa áttaði sig ekki, fyrr en þau voru
farin. Hún gekk inn í eldhús og ráfaði
um gólfið. En það gat hún ekki gert
lengi. Hún þaut upp á loft, kveikti Ijósið
í sínu herbergi og í herbergi Óla, þaut
niður stigann aftur og kveikti í stofunni
og eldhúsinu, klæddi sig í úlpuna, greip
lukt og þaut út. Hún var svo lítil og létt,
að hún komst varla úr sporunum. En
hún náði samt upp á hólinn, sem var
skammt frá bænum. Þar stóð hún með
Ijósið í hendinni.
Nú mundu pabbi og mamma ekki
villast í vonda veðrinu, því þau gætu
gengið á Ijósið. Hún beið óralangan
tíma, en enginn kom. Allt í einu tók
hún snöggt viðbragð. Hún sá einhverja
hreyfingu fram undan. — Pabbi!
Mamma! hrópaði hún. Hún sá, að pabbi
hélt á Óla.
— Elsku barnið mitt, sagði mamma
og tók Dísu í fangið. — Þú hefur bjarg-
að okkur. Við hefðum villst, ef þú hefð-
ir ekki kveikt og hlaupið hingað út. Og
Óli er veikur, og við urðum að koma
honum heim. Ég hef ailtaf sagt, að þú
værir hugrökk og skynsöm stúlka. Þú
ert sannkölluð litla hetjan okkar, Dísa.
Guðrún Jónsdóttir,
ísafirði.
38