Æskan

Árgangur

Æskan - 01.01.1975, Blaðsíða 46

Æskan - 01.01.1975, Blaðsíða 46
Jón Pálsson bankagjaldkeri stofnaöi Fuglavinafélagið Fönix 27. febrúar 1934 til minningar um 90 ára afmæli P. Nielsens, hins mikla dýravinar og náttúrufræðings, sem var verslunarstjóri við Lefoliisverslun á Eyrarbakka. Félagið stofnaði hann með 7 drengjum á barnaskólaaldri. Þeir voru: Jón Kjartansson, Jón Sveinbjörnsson, Ólafur Maríus- son, Skúli Sigurz, Páll Hannesson, Júlíus Maggi Magnús og Magnús Andrésson. Tilgangur félagsins var fyrst og fremst að laða fugla að Tjörninni með því að gefa þeim daglega brauð. Hann talaði við 7 bakara um þessa fyrirætlun sína, og voru þeir allir fúsir til að gefa brauð. Hver drengjanna hafði sinn vikudag og sótti brauð í ákveðna brauðbúð. Jón afhenti hverjum þeirra bók til þess að færa inn í hve mörgum fuglum hafði verið gefið. Á þennan hátt var hægt að fylgjast með því, hve fuglunum fjölgaði. Þess má geta, að þegar félagið var stofnað, var mjög lítið um fugla á Tjörninni. En stofnun þess og vaknandi áhugi almennings á þeim yndisauka, sem fuglalífið veitir, hefur borið þann góða árangur, sem nú er daglega hægt aö sjá þar. Drengirnir komu á fundi hjá Jóni í Oddfellowhúsinu uppi á hverjum sunnudagsmorgni og sýndu honum skýrslur sínar yfir brauðgjafirnar. Þessir fundir voru mjög skemmtilegir. Hann var sífræð- andi og menntandi drengina með upplestri, frásögnum og leiðbeiningum. Einkum lagði hann mikla áherslu á að boða þeim bindindi. Seinna fjölgaði í félaginu. Voru þá stundum haldnar kvöldvökur og á sumrin farið í ferðalög. Á einum fundinum var ákveðið að senda nefnd til borgar- stjórans, Péturs Halldórssonar, og biðja hann að láta stækka hólmann í Tjörninni. Sendir voru 3 drengjanna. Hann tók þeim mjög vel og lét flytja á ísi um veturinn mikið af grjóti út í hólmann, sem notað var svo um vorið til stækkunar- innar. Ekki man ég hvað lengi félagið starfaði, en á 5 ára af- mæli þess, 27. febrúar 1939, var haldin afmælisskemmtun í Oddfellowhúsinu niðri, og var þá foreldrum drengjanna boðið að vera með. í tilefni af þessu afmæli kom Jón Pálsson til mín og bað mig að yrkja kvæði til félagsins og hafa það við lag sem hann tiltók. Kvæði þetta lét hann svo drengina æfa og syngja í afmælinu. Maríus Ólafsson. TIL FUGLAVINAFÉLAGSINS FÖNIX Vetrarins armur vefur veröld í klakahjúp; blómin og grösin grefur, geymir þau fönnin djúp. Stormurinn þyrlar snænum, snjótittling undan ber. Hópast þeir heim að bænum hjálpar að leita sér. Við skulum alltaf vera vinir í þeirra neyð. Fuglunum gott að gera gleður oss sjálf um leið. Berum á borðið hvíta brauðmola handa þeim. Gott er þá gleði að líta gestanna, er koma heim. Sumarið blessað bráðum breiðir út faðminn sinn; greiðir úr gullnum þráðum geislana um himininn, þíðir með blíðu brosi bláhvítan klakaserk. Vaknar þá mold og mosi, — máttugast furðuverk. Gaman er þá að ganga göturnar kringum Tjörn. Um hana endilanga andir sín leiða börn. Gutlandi í grænu sefi grípa þær ferð til lands, borða með breiðu nefi brauðið úr lófa manns. Fuglarnir loftið fylla fögnuði og þakkargjörð. Ljóð þeirra Ijósið hylla, lífið og fósturjörð. Boðskapinn hafa borið: „Burtu er vetrarþröng". Væri ekki tómlegt vorið, vantaði fuglasöng? Maríus Ólafsson. 4

x

Æskan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Æskan
https://timarit.is/publication/383

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.