Árbók Háskóla Íslands - 02.01.1929, Síða 32
32
í London. Sögnin segir, að hann hafi séð epli detta til jarðar.
Honum fannst eins og eitthvert aíl hlyti að toga það inn að
jarðarmiðju; hann nefndi það aðdrátt og hugsaði sér, að
eplið myndi hafa fallið alla leið inn að þungamiðju jarðar,
ef það hefði ekki staðnæmst á yfirborðinu og verið haldið
þar uppi af fastri jarðskorpunni. Sjálfum fannst lionum sem
hann sæti kyr í garði sínum, þótt hann vissi, að hann eins
og allir aðrir hlutir á jörðu hér fleygðist áfram með hér um
bil 30 km. hraða á sekúndu umhverfls sólina.
En nú skulum við hugsa okkur, að eplið sé skyni- og
skynsemigædd vera og að það horfi niður á Newton. Þótt
það sé að delta og detti með sívaxandi hraða, finnst því
samt, að það sé kyrrt. Aftur á móti sýnist því ekki betur
en að Newton sé að hraða sér upp til þess, og við nánari
umhugsun finnur það næsta eðlilega skýringu á þessu. Því
sýnist ekki betur en að frumeindir efnisins undir fótum
Newtons slái ótt og títt í iljar honum og af þvi stafi það,
að hann eins og íleygist i loft upp til þess.
Eplið og Newton hafa þannig hvort sina rúmsmynd og
þau meta allt út frá sinni eigin ímynduðu kyrstöðu. En
skýring eplisins á »himnaför« Newtons er öllu eðlilegri en
þetta dularfulla afl frá jarðarmiðju, sem hann hugsar sér að
dragi eplið til sin.
Til þess nú samt sem áður að gera báðum, eplinu og
Newton, nokkurnveginn jafnt undir höfði, skulum við hugsa
okkur, að Newton sé horfinn inn að jarðarmiðju, þar sem
þyngdaraflið dvín, svo að hann geti verið þar í ró og næði
og án þess að barið sé i iljar honum, og hann geti athugað
allt þaðan.
Enn sem fyrr virðast honum allir hlutir falla niður á
yfirborð jarðar, og hann skýrir þetta með sama dularfulla
aflinu og áður, aðdráttaraflinu. Eplin horfa niður til New-
tons og sjá ekki betur en að hann nálgist þau; en í þetta
sinn sjá þau engan eindaslátt í iljar honum sem orsök
hraðaukans og hugsa sér þvi, að þetta flug hans upp á við
stafi af einhverju dularfullu fráhrindingarafli jarðar. En
ekki getur jörðin gert hvorttveggja i senn og samtímis, togað
til sín eplin og hrundið frá sér manninum, svo að hér
er auðsjáanlega um einhverjar skynvillur eða hugvillur
að ræða.
En hvað segir nú Einstein sjálfur um öll þessi boðorð?