Hugur - 01.01.1991, Síða 20
18
W.V.O. Quine
HUGUR
varð mitt fyrsta alvarlega viðfangsefni, en áherslan var öllu meiri á
stærðfræðiþáttinn en hinn heimspekilega. En svo fór ég til
framhaldsnáms við Harvardháskóla, og þar innritaðist ég í heimspeki
því að Whitehead var heimspekingur, og hann var meðhöfundur
Russells að Principia Mathematica sem ég dáði meira en aðrar
bækur. Eftir þetta tók eiginleg heimspeki að leita meira á hugann.
Mér þótti fróðlegt að heyra, að áhugi yðar á heimspeki hefði fyrst
kviknað af efasemdum um kristindóm. En nú hafið þér eingöngu lagt
stund á rökfrœði, heimspeki málsins, þekkingarfrœði og frumspeki.
Þér virðist alveg hafa leitt hjá yður siðfrœði, stjórnspeki, fagurfrœði
og trúarheimspeki. Hvers vegna?
Af trúarheimspeki er einfalda sögu að segja. Ég hafnaði allri trú,
með þeim afleiðingum að ég hefði ekki haft um annað að hugsa þar
sem trú er annars vegar, en hvaða orsakir liggja til trúarbragða í
sálarlífi og félagslífi manneskjunnar. Og það er ekki heimspekilegt
viðfangsefni.
En höfnuðuð þér trú á heimspekilegum forsendum, eða . . .
Já, á heimspekilegum forsendum: þeim að trú styðjist ekki við rök.
Hvað um hitt sem ég nefndi, til dœmis siðfræði og stjórnspeki?
Já, ég kannast við að siðfræði og stjórnspeki séu mikilsverðar
greinar. En mér þótti rétt að setja sjálfum mér takmörk, því að
ráðgáturnar sem ég hafði hug á að glíma við voru svo víðfeðmar. Ég
komst að raun um að þær snertu málfræði ekki síður en stærðfræði. í
háskóla hafði ég talið mér trú um að ég hefði snúið baki við mál-
fræði, þótt áhuginn á orðsifjum eltist ekki af mér. En þá kom í ljós að
kenningar mínar um eðli mannlegs máls, taldi ég mér trú um, skiptu
sköpum um alla heimspeki. Á hinn bóginn gat ég ekki séð að
siðfræði hjálpaði mér til að hugsa skýrar um slík vandamál. Ég kaus
að sérhæfa mig. Það var ekki að ég teldi siðfræði litlu skipta.
Svo þér hafnið ekki siðfrœði, stjórnspeki og fagurfrœði sem
mikilsverðum greinum heimspekinnar?
Nei, vissulega ekki siðfræði og stjórnspeki. Um fagurfræði el ég
með mér efasemdir. Ég held að list og fegurð séu mikilsverð
sálfræðileg viðfangsefni fremur en heimspekileg, ég veit ekki af
neinum heimspekilegum gátum um list og fegurð sem vert sé að
glíma við. Kannski ég væri annarrar skoðunar ef ég vissi meira um
efnið.