Hugur - 01.01.1992, Blaðsíða 52
50
Hreinn Pálsson
HUGUR
Því er við að bæta að gagnrýnin hugsun hefur sannleikann að
frumviðmiði en merking hlutanna er frumviðmið skapandi hugsunar.
Gagnrýnin og skapandi hugsun eru ekki andstæðar heldur er það
ríkjandi hugsunarháttur, skeytingarleysið, sem er þeim báðum
andstæður.
Grunnleiknisvið ht'imspekilegrar hugsunar
Það má ekki skilja mál mitt sem svo að Lipman gefi lítið fyrir að
greina hvaða leikniþættir það eru sem námsefni hans sinnir. Þvert á
móti. Það má víða finna ítarlega lista yfir leikniþætti sem sinnt er í
námsefninu. Hér gefst ekki tími til að telja þá upp en mig langar til að
nefna fjögur meginleiknisvið sem eru öllu námsefni Lipmans
sameiginleg.8 Ung börn búa þegar yfir einhverri leikni í eftirfarandi
efnum þegar þau hefja skólagöngu en að þeim þarf að hlúa á öllum
skólastigum.
Rannsóknarleikni leiðréttir sjálfa sig í starfi og hún beinist að því
að uppgötva eða skapa leiðir til að rannsaka hið torræða og fella um
það dóma. Það er dæmi um rannsóknarleikni sem gerir börnum kleift
að tengja núverandi reynslu sína við fyrri reynslu sem og við
væntingar þeirra gagnvart framtíðinni. Þau skýra, segja fyrir um,
tengja orsök og afleiðingu og þar fram eftir götunum.
Rökleikni snýst fyrst og fremst um að draga ályktanir út frá núver-
andi þekkingu, hún t.d. kemur skipulagi á og samhæfir afrakstur
rannsókna. Rökfræðin hentar einnig vel sem mótvægi við botnlausa
afstæðishyggju sem virðist ríkjandi á unglingsárunum.
Upplýsinga- og skipulagningarleikni (eða hugtakaleikni) er leikni
sem beinist að því að fella upplýsingar í merkingarbærar skipulags-
heildir. Setning, hugtak og skema eru dæmi um slíkar heildir. (Til
skýringar má segja að samhengi setningar er grunneining hins
merkingarbæra. Hugtök eru „farartæki hugsunarinnar" en greining
þeirra getur verið erfið og orkufrek fyrir nemendur. Skema er virkt
skipulagskerfi, gefandi fyrir nemandann þar sem það lýkst upp fyrir
honum við frekari kynni, t.d. sýnd og reynd, stöðugleiki og síbreytni
eða einfaldlega frásögn.) Lýsing og frásögn eru dæmi um ferli sem
krefjast þess að við komum skipuiagi á vitneskju okkar og reynslu.
8 Sjá sama rit s. 40-46.