Morgunn - 01.12.1951, Síða 76
158
MORGUNN
megin; ef ekki fljótt, þá síðar. Síra Matth. Jochumsson
segir um manninn líkt og andarnir:
„Hann er á heimleið, Guð á allar götur.
Leiðin er löng — en heim kemst hann um síðir!“
VH.
18/3. ’ll.
Síðustu mannsaldrarnir hafa verið sannnefnd undra-
öld. Heimurinn hefur tekið meiri stakkaskiptum á þeim
en á nokkru tilsvarandi tímabili fyrr, Gufuaflið hefur brú-
að höfin, tengt löndin saman, gert nálega allan heiminn
að einu greiðfæru héraði, smíðað með risaafli hvers
konar góða gripi, sem mannshöndin orkaði ekki eða
vannst margfalt seinna. Rafmagnið varð að auðsveipum
þjóni í höndum mannanna, fluttu fyrir þá lifandi orð og
letruð skeyti óravegi yfir láð og lög, knúði áfram vélar,
lýsti borgir og bæi, eins og það vildi bjóða sólinni byrg-
inn. Mannsaugað tók að sjá með ótrúlegum glöggleik
lengst út í himingeiminn, út í hin yztu myrkur og óskapn-
að, tók að sjá djúpt inn í huliðsheima hinnar smágervu
náttúru, sem ósýnileg er berum augum. Þar fundust or-
sakir drepsóttanna, sem nú urðu að lúta í lægra haldi
í fyrsta sinni í sögu heimsins. Það var einhver undra-
ljómi, sem skein yfir allan heim. Aldrei höfðu mennirnir
séð hann slíkan, aldrei jafn auðugan, aldrei svo dýrð-
legan. Og hið mikla blys, sem lýsti þannig allan heiminn,
voru náttúruvísindin.
Því fór fjarri, að þessi mikla breyting væri aðeins á
yfirborðinu og hið ytra í breyttum samgöngum, atvinnu-
vegum o. þvíl. Hún risti djúpt, lengst inn í sálir manna
og hugsunarhátt. Yfir öll stóru, lítt kunnu svæðin, sem
þekkingin náði ekki til, hafði breiðst þéttvaxinn gróður
trúar og hjátrúar, eins og mosabreiða yfir úfið hraun,
sem vaxið hafði á þúsundum ára. Nú lagði þekkingin
undir sig hvert óþekkta svæðið á fætur öðru, og það