Morgunn - 01.12.1966, Qupperneq 47
MORGUNN
125
„Nú líður illa hjá amtmaiminum“.
Bergur Thorberg var skipaður amtmaður yfir Vestur-
amtinu árið 1866 og sat í Stykkishólmi. Fyrri kona hans var
Sesselja Þórðardóttir umboðsmanns í Sviðholti, Bjarnason-
ar. Hún lézt af barnsburði 26. janúar 1868. Amtmanni var
kunnugt um það, að landlæknir hafði litla trú á ólærðum
læknum, en sjálfur mun hann borið hafa fullt traust til Þor-
leifs í Bjarnarhöfn.
Dag þann, sem frúin andaðist, vaknar Þorleifur snemma
og segir upp úr eins manns hljóði: ,,Nú líður illa hjá amt-
manninum. Frúin er með jóðsótt og gengur treglega. Það
verður sent til mín í dag, en þá er það um seinan.“
Siðari hluta dags kemur sendimaður frá Thorberg amt-
manni með þau boð, að frúin sé þungt haldin og geti ekki
fætt. Og er Þorleifur beðinn að koma. Þá svarar hann: ,,Nú
er það um seinan, því að konan gaf upp öndina, þegar þú
varst að komast að Berserkjahrauni."
Sendimaður varð að hverfa aftur við svo búið. Var og
konan látin, og mun það hafa borið að um sama leyti og
Þorleifur sagði. Svipuð saga er sögð um lát Andreu dóttur
Árna Thorsteinssonar, sýslumanns.
„Ég sný annars aftnr, frænkið
Þórður alþingismaður á Rauðkollsstöðum var systurson-
ur Þorleifs í Bjarnarhöfn. Einhverju sinni sótti Þórður Þor-
leif til Benjamíns bónda Gíslasonar í Dalsmynni, sem þá
var veikur. Á miðjum fjallgarðinum stöðvar Þorleifur hest
sinn og segir: ,,Ég sný annars aftur, frænkið mitt. Hann
deyr úr þessu, karlinn." Orðið „frænki“ notaði hann stund-
um um frændfólk sitt. Þórður svarar: „Ef til vill kynnir þú
nú að geta komið honum á fætur í bili.“ Þorleifur þegir um
stund með aftur augun, en segir síðan: „Satt segir þú,
frændi. Hann kemst á fætur og verður á fótum í hálfan
mánuð. Þá leggst hann aftur og deyr eftir viku.“ — Allt
gekk þetta eftir, eins og Þorleifur hafði sagt.