Morgunn - 01.12.1969, Blaðsíða 42
122
MORGUNN
svo erfðasyndin og brottrekstur þeirra beggja úr Paradís.
En um þetta verð ég að segja, að ég hef lúmskan grun um
það, að í smiði þessarar sögu gæti heldur leiðinlegra fingra-
fara karlmannsins. Og mér finnst það ekki alls kostar
drengilegt, að reyna að koma allri skömminni á konuna.
Ég held, að upptök syndarinnar séu enn og hafi jafnan verið
engu síður hjá okkur karlmönnunum. En hvað sem um þetta
er, þá verð ég að játa það hreinskilnislega, að ég fyrir mitt
leyti vil helmingi heldur burðast með erfðasyndina, þó eng-
an veginn sé hún eftirsóknarverð, heldur en að búa við þá
hörmung, að engin kona væri til í veröldinni. Og má lá mér
það hver, sem vill og getur.
En nú er rétt — og jafnvel þó fyrr hefði verið — að snúa
talinu að öðru efni, og þá sennilega að jólunum, vegna þess,
að mér skilst, að til þess hafi í raun og veru verið ætlazt, og
þessi samkoma haldin, að minnsta kosti öðrum þræði vegna
þess, að jólin eru nú óðum að nálgast.
Jólin eiga sér miklu lengri aðdraganda nú á dögum, og
þeim fylgir miklu meiri undirbúningur og umstang, en átti
sér stað í mínu ungdæmi. Það fyrsta, sem minnti okkur
krakkana á, að jólin væru í nánd, var þjóðtrúin á komu jóla-
sveinanna „níu nóttum fyrir jól“. Við sáum þá að vísu ekki
í þá daga, en okkur var sagt, að þeir væru á gægjum hér og
þar, á gluggum og í göngum, í búri og eldhúsi. Hinn sýnilegi
undirbúningur jólanna hófst ekki fyrr en með laufabrauðs-
deginum, sem var mikill dagur í augum okkar krakkanna,
og hlökkuðum við jafnan mjög til komu hans.
Nú eru aftur á móti þau boð, sem jólin gera á undan sér,
að minnsta kosti hér í höfuðstaðnum, öllum sýnileg og
áþreifanleg, svo ekki er þar um að villast. Fyrst koma jólin
í verzlanirnar, og eru þegar þangað komin fyrir nokkru, þó
ennþá séu nærri þrjár vikur til hátíðarinnar. En þessi jól
eru sýnd en ekki gefin. Að vísu segir í auglýsingum, bæði í
útvarpi og blöðum, að þetta jólaglys og jólavarningur, sé
hræódýr og þess utan algjörlega ómissandi til jólanna og
beinlínis lífsnauðsyn. Og blessað fólkið trúir þessu og tekur