Saga - 1997, Page 8
6
FORMÁLI
opnar lesendum með þeim hætti að ýmsu leyti nýja sýn á veru-
leika íslensks samfélags á þessum tíma.
Sigurður Gylfi Magnússon rær að sumu leyti á svipuð mið og
Erla Hulda í ritgerð sinni „Kynjasögur á 19. og 20. öld? Hlutverka-
skipan í íslensku samfélagi", en sjónarhorn hans er þó gerólíkt, því
að hann vill freista þess að rekja sameiginlega sögu kynjanna í stað
þess að fjalla um reynslu karla og kvenna hvora í sínu lagi. Líklegt
er, að niðurstaða höfundar verði ekki óumdeild, en hann telur rann-
sókn sína leiða í ljós, að þáttur kvenna í almennu þjóðlífi hafi verið
meiri en oftast hefur verið talið og staða þeirra allt önnur en ýmsar
samtímaheimildir og sagnfræðingar hafa haldið fram.
Saga flytur að þessu sinni einnig ritgerðir eftir tvo viðurkennda
fræðimenn úr hópi eldri sagnfræðinga, þá Lýð Björnsson og Sigfús
Hauk Andrésson, og fjalla þeir báðir um viðfangsefni af kjörsviði
sínu, atvinnusögu. Ritgerð Sigfúsar Hauks ber heitið „Tilskipun
um aukið verslunarfrelsi fyrir Island árið 1816 og tildrög hennar".
Þar gerir hann grein fyrir þeirri takmörkuðu rýmkun á fríhöndlun-
inni, sem tilskipunin fól í sér, og baksviði hennar. Þessi rannsókn
er í rökréttu áframhaldi af grundvallarrannsóknum Sigfúsar í versl-
unarsögu tímabilsins næst á undan.
Lýður Björnsson hefur manna mest lagt sig eftir sögu „Innrétt-
inganna" og þar með mikilsverðum þáttum í atvinnusögu 18. ald-
ar. Viðfangsefni hans að þessu sinni er af svipuðum slóðum. í rit-
gerðinni „Við vefstól og rokk" gerir Lýður grein fyrir áhugaverð-
um þætti í viðleitni danskra stjórnvalda til að bæta verkkunnáttu
Islendinga á síðustu tveimur tugum 18. aldar, en þá fóru 20-30
ungmenni utan til náms í spuna og vefnaði. Höfundur rekur feril
nemanna í Danmörku og reynir að fylgja þeim eftir að námi loknu.
Auk þess að hafa almennt gildi fyrir atvinnusöguna og samskipta-
sögu Dana og Islendinga, bregður höfundur upp margvíslegum og
oft átakanlegum myndum af kjörum og aðstæðum nafngreindra
íslendinga úr alþýðustétt, sem eru í framandi landi að brjótast í því
að bæta lífsbjargarmöguleika sína til frambúðar.
Undir hattinum „Andmæli og athugasemdir" birtist að þessu
sinni eitt megininnlegg, greinin „Um fræðilegan hernað og plág-
urnar miklu" eftir Gunnar Karlsson. Grein þessi er andsvar við rit-
gerðinni „Sóttir og samfélag" eftir Jón Ólaf ísberg, sem birtist í síð-
asta bindi Sögu. Sú ritgerð fjallaði m.a. um sum þau álitamál, sem
Gunnar og Helgi Skúli Kjartansson gerðu að umtalsefni í ritgerð
sinni „Plágurnar miklu á Islandi" í Sögu 1994. Er óhætt að segja, að