Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1954, Page 23
EINAR P. JÓNSSON:
Hver var hún?
Hún hvarf mér eins og drottning draumarjóð
í dagsins hyl, er nóttin bráðkvödd varð.
Mér fannst það mikið fyrir skildi skarð,
sem skelfing allífs nísti hold og blóð.
1 daginn fram hún seiddi söngvamögn,
svo svanaröddin varð að dauðaþögn.
Hún var að eðli stolt og stærilát,
en stoltið hvarf við glaum í sollsins hóp;
hún mynntist jafnt við stút og stjörnuglóp,
varð stundum dauðahrygg og æðiskát.
En röddin átti æðri heima vald,
sinn eigin bjarma, tign og lausnargjald.
Hún lagði á háls, en fann ei forna slóð
í fáti því, er eltir dæmda sál,
og skildi ei lengur algengt mannamál
né máttinn, sem í vegi hennar stóð.
Hún hafði drukkið beizka banaveig
í berjalaut úr grænum vasafleyg.
1 kvöldsins ró við rökkri hjúpað svið
og roðann hinzta, sem í vestri dó,
hin mikla drottning skalf og skellihló
í skýli sínu út við sáluhlið.
Hún stóð þar eins og úthverf erfðasynd
í eigin dýrð hin nakta beinagrind.
Ég heyri ennþá óm af hennar söng
og aldaþjáning, sem að baki lá;
hún birtist mér sem dýrðleg draumaspá,
með dásemd raddar stytti kvöldin löng.
Hvort mennsk hún væri maður neinn fékk séð
í martröð hitasóttar dúns á beð.