Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1954, Síða 47
FINNBOGI GUÐMUNDSSON:
Um íslenzku handritin
Hvar sem menn fara, er einhver
saga að gerast, mikil eða lítil eftir
því, hvernig á hana er litið. Saga
sumra þjóða hefur liðið öldum
saman eins og dökkmórauð elfur, er
rennur áfram þögul og án þess að
spegla nokkuð það, er á bökkum
hennar gerðist. Og þegar hún kemur
til sjávar, hefur hún ekkert að segja
hafinu, gruggar það aðeins dálítið
út frá ósnum og hverfur loks að
fullu. Þó er því, sem betur fer, ekki
svo farið um allar þjóðir. Að vísu
komast þær mjög misjafnlega langt
aftur í tímann, sumar aðeins örstutt,
þegar syrta tekur í álinn, aðrar
lengra, en engin eins langt og fs-
iendingar, er fylgt geta sögu sinni
allt til upptakanna. Þeirra saga er
líkt og bergvatn, sem líður lygnum
straumi og speglar í blikandi mynd-
um lífið á bökkunum beggja vegna.
Frásagnargleði hefur ætíð verið
ríkur þáttur í skapgerð fslendinga.
Þegar ritlist hófst a íslandi, opnaðist
henni nýr og óvæntur farvegur, er
í féllu nú sögur og kvæði, er varð-
veitzt höfðu mann fram af manni
allt frá landnámstíð. Og nýjar sögur
°g ný kvæði urðu til. Hvar sem
íslendingar fóru, varð til saga, hvort
sem hún gerðist heima eða heiman,
í höll eða hreysi, með konungum
eða kotungum, á Grænlandi eða
Furðuströndum, í Austurvegi eða á
suðurgöngu. Þó að þeir væru minn-
ugir á fortíðina, misstu þeir ekki
sjónar á samtíðinni, svo að t. d.
Njáls saga og sumir þættir Sturl-
ungu eru ritaðir, að því er ætla má,
um svipað leyti.
En tímarnir breytast, og viðhorfin
verða önnur. Þegar kemur fram á
14. öld, hætta menn að sjá söguefnin
í samtíð sinni og gefa ímyndunarafli
sínu lausan tauminn í tíma og rúmi,
svo sem ljóst verður af Fornaldar-
sögum Norðurlanda, Riddarasögum
og síðast, en ekki sízt hinum svo-
nefndu lygisögum, sem eru ýmist
stæling á erlendum sögum eða ein-
ungis hugarburður íslendinga á 14.
og 15. öld. Á hinu leitinu eru svo
þurrir annálar, er farið var að rita
af kappi á 14. öld.
Þó að svo færi, að þrek íslendinga
til skapandi sagnaritunar þryti að
lokum — og verða ástæðurnar til
þess ekki raktar hér — gerðu þeir
sér ætíð ljóst, hvern fjársjóð þeir
áttu í bókum sínum, og spöruðu oft
ekkert til að varðveita hann sem
bezt. Munu þannig fleiri handrit
vera til frá 14. öld en nokkurri ann-
arri, og stærsta íslenzka handritið,
er nokkurn tímann mun hafa verið
skrifað, handrit Flateyjarbókar, var
skráð á þeirri öld, eða nánara til-
tekið á árunum 1382—1387, nema
síðustu ár annálsms. En Flateyjar-