Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga - 01.01.1958, Page 24
6
TÍMARIT ÞJÓÐRÆKNISFÉLAGS ÍSLENDINGA
Þeir réðu sér ei fyrir þeim fögnuð’ er þeir hlutu,
hins fágætasta bezta síns ættarlands þeir nutu
og gleðin skein í heiði að gleymdu öllu stríði.
Hvort getur nokkur ráðið að tíminn ekki líði?
Sá strengjaleikur bara þá einu nótt var unun,
en eftir það var næðis og hvíldar fyrirmunun,
þeir kváðu svefns sér varnað af marri því og murri,
— og meinað var þess líka af þeirra eigin kurri.
Þeir mundu þó ei hafa við keipa sína kannast,
þótt klagað hefði verið og látið á þá sannast.
Þeir kváðu fast að orði og kröfðust að hann hætti,
hinn kaldrifjaði þrjótur, þeim hjartalausa slætti.
En hljómleikarinn sagðist svo líta á, að listin
til líknar væri í nauðum og tjáning hennar kristin.
Og á sig kvaðst hann leggja ei minna, ef ekki meira
en menn, sem höfðu ekkert að gera nema heyra.
Hann sagðist aðeins hafa þá hæstu list að bjóða,
þau heimsmeistara-tónverk sem væru allra þjóða
og hlutgeng hvar sem væri og eftirsótt af öllum,
sem ekki væru þursar úr steini inni í fjöllum.
Hann hafði þetta talað, er löng var þögn í lagi,
og lengst hún hafði meira en skyldi, það var bagi,
og áfram hélt hann leiknum og lengri gerðist vakan.
Á lagaverði skorað var þá, að koma og taka hann.