Helgafell - 01.06.1942, Blaðsíða 30
164
HELGAFELL
veir um daginn og færð svo þung, að hann varð að kafa klofsnjó mest af
leiðinni byggða milli. Var hann orðinn þreyttur mjög, er hann kom að
Sunnudal í Vopnafirði, eftir langa mæðu.
Síðla hausts gekk hann eitt sinn frá Siglufirði til Reykjavíkur, en lítið
kvaðst hann hafa séð af landinu á þeirri ferð, því megin hluta leiðarinnar
hefði hann farið í myrkri.
Á ferðum sínum athugaði hann jarðmyndanir, jurtagróður og fuglalíf.
Aflaði hann sér á þennan hátt svo mikillar þekkingar á landinu og gróður-
ríki þess, að þar munu tæpast hafa staðið honum á sporði aðrir en fær-
ustu fræðimenn.
V.
Það kom snemma í ljós, að Magnús hafði fengið í vöggugjöf ríka hneigð
til kveðskapar. En að sjálfsögðu hefur það, hve rímnakveðskapur var mikið
hafður um hönd á Þorvaldsstöðum, ýtt undir, hversu snemma hann byrjaði
að yrkja. Kvöldvökunum á Þorvaldsstöðum lýsir Magnús á þessa lund:
,,Frá vetrarnóttum til sumarmála voru sögur lesnar eða rímur kveðnar á
hverju kvöldi, í tvo klukkutíma, frá klukkan 7 til 9. Síðan var kvöldmatur-
inn, þá lesinn húslesturinn með sálmasöng fyrir og eftir, og síðan háttað.
Frá því ég var 4 til 7 eða 8 ára var heimilisfastur góður kvæðamaður, og
hefur þá rímnakveðskapurinn verið öllu tíðari en sögulesturinn. Mér þótti
rímnakveðskapurinn snemma góð skemmtun, og hafði mikinn áhuga fyrir
þeirri grein. Því var það einu sinni, er mamma var að láta mig lesa faðir-
vorið eftir húslesturinn, að ég sagði í staðinn fyrir amenið eftir signinguna:
Nú vildi ég, að Ulfarsrímur væri komnar. — Það var einhvern tíma, er ég
var á 6. eða 7. ári, að kona úr nágrenninu var næturgestur hjá okkur. Það
kvöld voru rímur kveðnar. Er hún sá, að ég sat hreyfingarlaus allan tím-
ann, flötum beinum á pallinum, og góndi upp í kvæðamanninn, spurði hún
mömmu: „Skilur hann þetta ?“ Þetta þótti mér heimskuleg spurning og
stór-móðgandi, því ég vissi ekki betur, en að ég skildi rímur til fulls, eða
að minnsta kosti eins vel og hver annar. En að ég horfði fast á kvæðamann-
inn, var með fram vegna þess, að hann hafði þann sið að láta neðri skoltinn
ganga ótt og títt til hliðanna, til þess að fá dill á lotuna eða seiminn í erindis-
lok, og það þótti mér kostuleg skemmtun að sjá, hvernig skeggið hristist.
Hinir karlmennirnir á heimilinu jöfnuðust ekki á við þennan kvæðamann.
Hann var kvæðamaður af guðs náð. En þeir voru bara eins og fólk er flest.
Og þegar hann fór var lítið kveðið á kvöldvökum. En hitt var daglegt, að
menn rauluðu við vinnu sína, bæði úti og inni. Mér virtist hver hafa sitt
kvæðalag og ekki læra eða nota nokkurn tíma annarra lag. Svo leit út
sem hver og einn byggi sér til kvæðalag, líklega ósjálfrátt, og því hélt
hann síðan. Það nægði honum, og hefur eflaust verið eðlilegur ávöxtur