Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.11.2004, Page 57

Læknablaðið - 15.11.2004, Page 57
UMRÆÐA & FRÉTTIR / AÐALFUNDUR LÍ húsanna. Þar hefði komið fram að kostnaður við sjúkrahúsþjónustuna hefði ekki dregist saman heldur aukist, jafnvel farið úr böndunum. Þegar farið var í saumana á þessu kom í ljós að hækkunin hefði ekki orðið hjá læknum eða við umönnun sjúklinga, sá kostnaður var mjög sambærilegur við það sem þekkt- ist á bresku samanburðarsjúkrahúsunum. Hins vegar var stjórnunarkostnaður 42% hærri á Landspítalan- um. Af þessu hefði hins vegar verið dregin sú undar- lega ályktun að stórauka þyrfti dag- og göngudeild- arþjónustu við spítalann. Steinn sagði að þetta væri tilefni þess að Jónínu- nefndin var sett á laggirnar. Þegar hún hafði starfað um hríð varð ljóst að útkoman úr því starfi yrði tæpast mikil. Þess vegna hefðu læknasamtökin ákveðið að fara þess á leit við Hagfræðistofnun Háskóla íslands að hún gerði sjálfstæða könnun á því hver raunveru- legur kostnaður væri við þjónustu sérfræðilækna á stofum, á heilsugæslustöðvum og göngudeildum sjúkrahúsanna. Nú lægi þessi könnun fyrir í skýrslu- formi og hún væri athyglisverð lesning. Til dæmis væri ljóst að stofustarfsemin, sérstaklega hjá lyflæknum en jafnvel einnig í skurðgreinum, væri langtum ódýrari en göngudeildarþjónusta spítalanna. - Með þessa skýrslu í höndunum getum við læknar takið þátt í upplýstri umræðu um þessi mál og borið höfuðið hátt með starfsemi okkar, sagði Steinn. Á þessum nótum er rétt að ljúka þessari frásögn af málþingi um verkaskiptingu í heilbrigðiskerfinu en ljóst er að þeirri umræðu er ekki lokið, hvort sem Jónínunefndin verður endurreist eður ei. „Líðan sjúklings eftir atvikum góð" - Erindí Róberts Marshali um hag sjúklinga og skyldur lækna og blaðamanna vakti athygli Aðalfundir LÍ hafa lengi verið í nokkuð föstum skorðum en á fundinum sem hald- inn var í byrjun október var tekið upp á þeirri nýbreytni að efna til Læknaþings. Umræðuefni þingsins var Sjúklingar og lœknar í samfélaginu - staða þeirra og hlutskipti. Frummælendur voru fimm: Jim Appleyard forseti Alþjóðafélags lækna fjallaði um fagmennsku lækna sem var leiðarstef dagsins en á eftir honum fluttu erindi Elínborg Bárðardóttir formaður Félags íslenskra heimilislækna, Dögg Páls- dóttir lögmaður, Róbert Marshall formað- ur Blaðamannafélags íslands sem fjölluðu um hag sjúklinga og skyldur sinna stétta og loks Óskar Einarsson formaður LR sem fjallaði um trúnaðarsamband lækna og samfélags. Hér gefst ekki tóm til að fjalla ítarlega um öll erindin en ef marka má viðbrögð úr sal og umræður að loknum framsöguer- indum kveikti leiðtogi blaðamanna mest í fundarmönnum. Róbert Marshall hélt því meðal annars fram að engin samfélags- mein væru leyst í þagnarbindindi og að það ætti einnig við um starfsvettvang lækna. Hann nefndi dæmi frá Bandaríkjunum þar sem umfjöllun blaðamanna um mistök í heilbrigðiskerfinu varð til þess að starfs- hættir kerfisins breyttust. í þeim tilfellum höfðu málin verið rædd í hópi lækna án þess að nokkuð breyttist. Það var ekki fyrr en blaðamenn eða fólk þeim nákomið dó sem málin komust upp á yfirborðið og vinnubrögð heilbrigðiskerfisins breyttust. Róbert nefndi samskipti fjölmiðla við lækna á bráðadeild Landspítala sem fylgja þeirri reglu að eini maðurinn sem fjöl- miðlar geta talað við er vakthafandi lækn- ir. Sá læknir er þó oft upptekinn og getur lítið sagt en samskiptin liðu fyrir það að spítalinn hefði engan talsmann sem gæti tjáð sig um afleiðingar slysa og líðan fórn- arlamba þeirra. „Líf vakthafandi læknis, hvað fjölmiðla varðar, væri óbærilegt ef þetta væri einn og sami maðurinn en mik- ið væri líf okkar fjölmiðlamanna betra ef svo væri,“ sagði Róbert. Út úr þessum samskiptum kæmi oft að líðan sjúklings væri eftir atvikum góð sem væri eitthvert merkingarlausasta orðasamband íslensk- ra fjölmiðla. Hann nefndi nýlegt dæmi um samskipti íslenskra lækna og fjölmiðla þar sem veikindi forsætisráðherra íslands voru til umræðu og bar þau saman við það þeg- ar breskur kollega ráðherrans veiktist til að sýna muninn á íslenskri fjölmiðlaum- fjöllun og erlendri. Þegar Davíð Oddsson veiktist tókst ekki að toga stakt orð upp úr neinum lækni um veikindi hans en þegar Tony Blair fór í skurðaðgerð mætti læknir í útsendingu Sky-fréttastofunnar með lík- an af hjarta til að sýna hvað væri verið að gera við ráðherrann. Og það sem meira var: líflæknir ráðherrans var í símaviðtali á sama tíma og greindi frá líðan skjólstæð- ings síns. Frummælendum varð nokkuð tíðrætt um það sem nefnt er læknamistök en menn vildu frekar nefna óhöpp í heilbrigðiskerf- inu en umræða um þau hefur verið mikil á síðustu árum. Dögg Pálsdóttir ræddi í því samhengi um lögin um sjúklingatrygg- ingu þar sem kveðið er á um bótaskyldu sjúklinga sem verða fyrir skakkaföllum í heilbrigðiskerfinu, en án þess að einhver einstaklingur sé dreginn til ábyrgðar. Hún gagnrýndi lækna nokkuð fyrir það að þeir væru tregir til að tilkynna um tilvik þar sem árangur meðferðar hefði orðið annar en að var stefnt. Einnig sagði hún að lækn- ar stæðu sig ekki í stykkinu við að upplýsa sjúklinga um rétt þeirra samkvæmt áður- nefndum lögum um sjúklingatryggingu. Umræður um þetta og fleiri atriði sem fram komu í framsöguerindunum voru líf- legar en að vanda hefði tíminn að ósekju mátt vera lengri. Læknablaðið 2004/90 785

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.