Læknablaðið - 15.12.2011, Page 46
UMFJÖLLUN O G GREINAR
„Þegar alll er dregið samati þá má segja að snemma
beygist krókurinn þar sem ég hef enn ánægju af því
sama og í barnæsku, lestri oggrúski afýmsu tagi."
smásmugulegri yfirheyrslu. Smám saman
fór ég þó að hafa meira gaman af Jóni og
lærði að meta lævísa kímni hans. Hann
var virtur fræðimaður og lét eftir sig
ágæt ritverk. Davíð Davíðsson prófessor
kenndi lífeðlisfræði og lífefnafræði á öðru
og þriðja ári. Davíð var listrænn, músík-
alskur, kíminn og orðheppinn, stríðinn,
hugmyndaríkur og vel að sér í fræðunum,
en óskipulagður, dómharður og dyntóttur.
Við áttum reyndar eftir að verða miklir
vinir.
Fyrirkomulag námsins í læknadeildinni
var grimmilegt að því leyti að ef nem-
endur stóðust ekki próf að loknu þriðja
árinu varð að byrja alveg frá byrjun að
nýju eða hverfa frá læknanámi. Margir
fóru illa á þessu. Síðasti hluti námsins var
mun skemmtilegri, þar sem við dvöldum
á ýmsum deildum spítalanna og nutum
leiðsagnar sérfræðinga á hverju sviði. Það
er þó ólíku saman að jafna við spítala-
kennslu í dag, þar sem skipulag og klínísk
þjálfun er í miklu betra horfi. Við vorum
meira og minna áhorfendur að vinnu sér-
fræðinganna. Þó var það ólíkt skemmti-
legra en þurrir fyrirlestrar og yfirheyrslu-
form kennslunnar fyrstu árin."
Hjartalækningar í Bretlandi og Bandarikjunum
Að loknu kandídatsári og héraðsskyldu
hóf Þórður framhaldsnám við hjartadeild
Hammersmith-sjúkrahússins í London
í ársbyrjun 1970 undir leiðsögn Johns
F. Goodwin og Celiu Oakley. „Þau voru
álitin meðal fremstu sérfræðinga Bret-
lands í hjartalækningum og læknar um
allt Bretland sendu þeim sjúklinga með
vandráðin sjúkdómseinkenni. Ómskoð-
anir voru á frumstigi og enn stuðst að
mestu við hefðbundna læknisskoðun við
sjúkdómsgreiningu. Sjúklingahópurinn
á hjartadeild Hammersmith Hospital var
fjölbreyttur og allt annað en tilbreytingar-
laus."
Samhliða starfi á hjartadeild sjúkra-
hússins lagði Þórður grunn að doktors-
verkefni sínu sem fjallaði um slagbilsskeið
í hjarta. Doktorsvörnin fór fram í febrúar
1974 og eftir það fór Þórður að leggja drög
að frekara rannsóknarstarfi og framhalds-
námi í Bandaríkjunum.
„Það kom ýmislegt til greina í þessu
sambandi en niðurstaðan varð sú að ég
fékk stöðu aðstoðarlæknis við Baylor
College of Medicine við Methodist Ho-
spital í Houston í Texas og við Sólrún
konan mín fluttum þangað sumarið 1974.
Það var mikill áfangi í mínum huga að
komast til Houston en töfraljómi lék á
þessum árum um háskólasjúkrahúsið þar,
einkum á sviði hjartaskurðlækninga. Þar
voru tveir frægustu hjartaskurðlæknar
heims, Michael Debakey og nemandi
hans, Denton Cooley, en þeir sátu ekki
á sátts höfði. Hjartaígræðsluaðgerðir
voru þá nýjar af nálinni og gerðust þeir
fjandvinir stórvirkir á þeim vettvangi.
Þótt hróður lyflækna í Houston væri ekki
sambærilegur við orðstír skurðlæknanna,
þótti mér heillandi tilhugsun að leita nýrra
viðhorfa og vitneskju í þessari ungu og
auðugu olíuborg."
í Houston dvaldi Þórður í eitt ár við
læknisstörf og rannsóknir og kynntist því
sem efst var á baugi í hjartalækningum
í heiminum. „Ég kynntist þarna mörgu
úrvalsfólki þótt stórkanónurnar stigju
ekki niður af stalli sínum. Mestur hluti
starfs míns fór fram á rannsóknastofu í
hjartasjúkdómum en ég var oft á ráðgef-
andi vakt á hjartadeildum. Þarna var þá
stærsta hjartagjörgæsludeild í heimi með
56 rúmum og 12 skurðstofum. Debakey
fór á milli skurðstofanna og gerði vanda-
sömustu inngripin. Menn óttuðust hann
svo að sumum lá við öngviti ef hann yrti
á þá. Hann rak menn umsvifalaust vegna
minnstu yfirsjóna og hann þoldi alls ekki
að honum væri sagt frá fylgikvillum eftir
aðgerðir hans, og enn síður dauðsföllum.
Fyrir kom að undirmenn hans földu
nýlátna sjúklinga í lyftum eða þvottaher-
bergjum þegar von var á karli.
Dvölin í Houston var lærdómsrík
og áhugi minn á að stunda rannsóknir
fékk nokkurn byr, en þó langaði mig að
komast að á stofnun sem hafði á sér meiri
rannsóknabrag. Ég sótti því um starf við
lyflækningadeild háskólasjúkrahússins
við University of California í San Diego.
Það kom fljótt á daginn að umskiptin voru
jákvæð því að verkefnin og aðstaðan sem
mér var búin hentaði mér fullkomlega.
710 LÆKNAblaðið 2011/97