Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.04.2012, Page 33

Læknablaðið - 15.04.2012, Page 33
SJÚKRATILFELLI Karlmaður með lækkað natríum, slappleika og megrun vegna æxlis í heiladingli Guðni Arnar Guðnason, Sigríður Þórdís Valtýsdóttir, Trausti Valdimarsson, Stefán Þorvaldsson, Þorvaldur Magnússon ÁGRIP Tæplega áttræður karlmaður var iagður inn á sjúkrahús til endurhæfingar eftir aflimun á fæti þremur mánuðum fyrr. Vegna vöðvarýrnunar og slapp- leika varfyrirhugaðri þjálfun með gervilim frestað. Líðan sjúklings hrakaði jafnt og þétt og rannsóknir sýndu meiri lækkun á natríum í sermi. Upp- vinnsla leiddi í Ijós skort á heiladingulshormónum sem reyndist stafa af æxli í heiladingli. Eftir að uppbótarmeðferð með kortisóli, þýroxíni og testósteróni var hafin lagaðist ástand sjúklings til muna og natríumgildi leiðréttust. Tilfelli Höfundar eru allir læknar og vinna á Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Akranesi. Fyrirspurnir: Guðni Arnar Guðnason gudni. gudnason@h ve. is Greinin barst: 1. október 2011 - samþykkt til birtingar: 29. febrúar 2012. Höfundar tiltaka engin hagsmunatengsl. 78 ára karlmaður með sögu um útæðasjúkdóm og sykursýki af tegund 2 var staddur erlendis þegar hann braut hægri lærleggsháls eftir fall. Skipt var um mjaðmalið á sjúkrahúsi en mánuði síðar komst drep í hælsárið og þurfti að taka af hægri fótlegg neðan við hné. Vegna þrekleysis sjúklings var ekki hægt að hefja sjúkraþjálfun. Blóðrannsóknir á honum sýndu lækkað natríum í sermi, 128 mmól/lítra, en ekki voru gerðar frekari rannsóknir á blóðsöltum. Sjúklingnum voru gefnar salttöflur og hafin sjúkraþjálfun sem gekk hægt. Þremur mánuðum síðar var hann fluttur á sjúkrahús til frekari endurhæfingar. Við komu var sjúklingur sljór og ekki áttaður að fullu. Hann var 1,75 m að hæð og vó 54 kg, eða 9 kg léttari en við mælingu tveimur árum fyrr. Við skoðun sást áberandi vöðvarýrnun. Röntgenmynd af lungum og tölvusneiðmynd af höfði voru eðlilegar, og slitbreytingar og beingisnun sáust á röntgenmyndum af hægra hné. Sjúklingur var áfram þreklaus og hafði litla matarlyst. Endurteknar mælingar sýndu lækkandi natríum í sermi, úr 135 í 125 mmól/ lítra. Talið var að sjúklingurinn hefði heilkenni óvið- eigandi losunar þvagskerðihormóns (SIADH, syndrome of inappropriate ADH secretion) og voru fengnar tölvu- sneiðmyndir af heila, brjóstholi og kviðarholi en þær voru taldar eðlilegar. Nokkrum dögum síðar mældist natríum í sermi aðeins 119 mmól/lítra og sjúklingur- inn var orðinn mjög þreklítill og kvartaði yfir ógleði. Fengin var morgunmæling á kortisóli í sermi sem sýndi verulega lækkað gildi, eða 48 nmól/1 (viðmiðunargildi 170-550 nmól/1) og vaknaði þá grunur um vanstarfsemi á heiladingli. Frekari blóðrannsóknir eru sýndar í töflu I, en þær sýndu lækkuð gildi þýroxíns (fT4) og þrí- joðþýroníns (fT3) og testósteróns, LH og IGF-1 (tafla I). FSH (follicular stimulating hormone, kynfrumnakveikja) var nálægt neðri mörkum, ACTH (adrenocorticotropic hormone, nýrilbarkarhvatijog TSH (thyroid stimulating hormone, skjaldvakakveikja) voru innan eðlilegra marka en prólaktín lítillega hækkað. Sterkur grunur vaknaði um sjúkdóm í heiladingli sem ylli skertri framleiðslu heiladingulshormóns. Segulómun af tyrkjasöðli (mynd 1) sýndi 1,4 x 1,3 x 1,3 cm fyrirferð í heiladingli sem óx upp að sjóntauga- víxlum (chiasma opticum) og innri hálsslagæð hægra megin. Sjónsviðsmæling sýndi væga skerðingu gagn- augamegin á vinstri hlið. Útlitið var talið samrýmast góðkynja kirtilæxli í heiladingli. Eftir samráð við heila- skurðlækna var ákveðið að bíða með skurðaðgerð og endurmeta æxlið þremur mánuðum síðar. Gefið var ACTH (Synacthen) í vöðva sem hækkaði kortisól í sermi úr 172 í 399 nmól/1 eftir 30 mínútur og í 446 nmól/1 eftir klukkustund. Svörunin var metin ófull- nægjandi en óvart hafði verið gefinn of hár skammtur af nýrilbarkahvata, 1000 ug í stað 250 ug. Hafin var meðferð með hýdrókortísóntöflum og skömmu síðar einnig með þýroxíni (Levaxín) og testósteróni. Eftir lyfjameðferð hurfu einkenni sjúklings á nokkrum vikum. Þrek og matarlyst jókst og þreyta og sljóleiki gengu til baka. Þremur vikum síðar mældist þýroxín í sermi 15,3 pmól/1 í stað 10,6 pmól/1 áður, og natríum hækkaði úr 122 mmól/1 í 136 á 5 dögum. Hann þyngdist um 12 kg á tveimur mánuðum, gat hafið endurhæfingu, lært að nota gervifót og var útskrifaður á dvalarheimili. Endurteknar segulómanir þremur og 12 mánuðum eftir innlögn sýndu óbreytta stærð heila- dinguls og ekki höfðu komið fram nýjar sjónsviðstrufl- anir. Því var ákveðið að bíða með skurðaðgerð. Tafla 1. Eðlileg gildi eru sýnd innan sviga. ACTH 20 (0-46 ng/lítra) = nýrilbarkahvati TSH 1,41 (0,3-4,2 mU/lítra) = skjaldvakakveikja fT4 10,6 (12-22 pmól/Ktra) = týroxín fT3 3,1 (3,5-6,7 pmól/lítra) = þríjoðtýronín LH 0,6 (1,7-9,0 U/lítra) FSH 1,7 (1,5-12 U/lítra), Testósterón 0,09 (6,7-25,7 nmól/lítra) IGF-1 43 (59-177 míkrógrömm/litra) Prólaktín 33,4 (4,5-21,0 míkrógrömm/lítra) = mjólkurhormón LH=gulbúskveikja, FSH=kynfrumnakveikja, IGF-1 =lnsulin-like Growth Factor-1 LÆKNAblaöiö 2012/98 225

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.