Tímarit Máls og menningar - 01.12.1945, Blaðsíða 32
212
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
latínu Studia Islandica. Af því liafa sjö hefti borizt hingað, hið
síðasta frá árinu 1940. Þarna er hver ritgerð birt sem sérstök bók,
og er það fyrirkomulag auðvitað skemmtilegt að sumu leyti. En
gallinn á því er m. a. sá, að ekki er víst að allar ritgerðir sem full
ástæða gæti verið til að prenta séu svo miklar að vöxtum að vel fari
að þær séu gerðar að sjálfstæðum bókum. Hins vegar hefur þetta
ritsafn sýnl ljóslega að svo mikill gróður er i starfsemi fræðimanna
á íslandi að þeim ætti að vera hægðarleikur að gera myndarlega úr
garði sérstakt tímarit eða ársrit er helgað væri íslenzkum fræðum
einum.
6. Árið 1930 kaus Háskóli íslands fimm manna nefnd til að
rannsaka „hvort háskólinn eigi að koma á stofn þjóðfræðistofnun,
er einkum gangist fyrir söfnun og rannsókn örnefna og byggða-
sagna“. Mér hefur ekki tekizt að finna neitt um þá niðurstöðu er
nefnd þessi hafi komizt að, og ekkert hefur frétzt um að nein slík
þjóðfræðistofnun hafi verið sett á laggirnar.
Eg fæ ekki betur séð en þarna hafi verið hreyft við einu allra-
brýnasta nauðsynjamáli íslenzkra vísinda, þó að háskólinn virðist
ekki hafa borið gæfu til á sjálfu alþingishátíðarárinu að finna á
því neina lausn. Aðeins hefði rannsóknarsviðið átt að vera miklu
víðtækara en nefnt var hér að ofan. Hefði háskólinn haft hug og
dáð til að koma á fót öflugri stofnun til að rannsaka hina fornu
alþýðumenningu Islands, sem nú er að hverfa, bæði í sveitum og
við sjávarsíðuna, mundi það afrek hans lengi haft í minnum á ó-
komnum öldum. Að vísu hefði slik stofnun átt að vera til fyrir
löngu. En þar sem fyrri kynslóðir munu geta haft fjárþröng sína
og úrræðaleysi sér til afsökunar, mun okkar kynslóð aldrei fá risið
undir því ámæli sem hún mun sæta síðar meir, láti hún síðustu
leifar alþýðumenningarinnar týnast rannsóknarlaust.
Hvernig er um íslenzk örnefni? Aðrar þjóðir á Norðurlöndum
hafa lengi átt sérstakar stofnanir sem vinna að söfnun örnefna, bæði
með fyrirspurnum á stöðunum sjálfum og með rannsóknum gam-
alla skilríkja. Þessi starfsemi er þar komin svo vel á veg að farið er
fyrir löngu að prenta söfn örnefnanna í stóreflis bókum, og þar að
auki birtist um þau hvert vísindaritið á fætur öðru. Einkum hefur