Tímarit Máls og menningar - 01.06.1950, Blaðsíða 42
32
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
stað þar sera það er meðtekið í viðurkenníngu þess, að allar nauðsyn-
legar aðstæður vanti til sköpunar og flutníngs listaverka; en ef slíkt
verk er altíeinu sett í stórfelda umgerð, ef fákunnátta eða viðvaníngs-
háttur er látinn birtast í tröllauknu formi með viðhöfn og tilætlunar-
semi, þá fer ekki hjá því að árángurinn verði þesskonar afkáraskapur
sem verkar öfugt við list: við skulum hugsa okkur að maður sem
aldrei hefur snert á pentskúf taki sig til og máli Gullfoss í fullri stærð,
síðan komi auðugur vinur hans og setji myndina í miljón króna
ramma og heingi hana upp í miðju Austurstræti. Maður sem lítt kann
til saungs getur þótt fyrirtaks saungmaður í afskektu bygðarlagi þar
sem fólki leiðist; menn eru þakklátir fyrir þá tilbreytíngu í fásinninu
sem saungur hans kann að tákna. En menn skvldu varast að halda að
saungur þessa manns batni á því þó hann tæki til að syngja á glæsi-
legasta saungpalli veraldarinnar. Ef maðurinn villist uppá slíkan pall
þá er saungur hans orðinn ömurlegt fyrirbæri og slys í staðinn fyrir
list.
Þegar nú íslenska þjóðin hefur lagt uppí hendur oss listamönnum
dýrmætari tæki til listflutníngs en vér höfum áður átt, einsog til dæmis
þetta þjóðleikhús, þá hvílir sú frumskylda á listamönnunum að afla
sér þeirrar mentunar í list sinni, sem sé í samræmi við tækin: veg-
semdin krefst af listamanninum meiri elju og samviskusemi en áður.
Þegar tækin eru orðin þetta fullkomin, þá er ekki leingur nein afsökun
í því að vera viðvaníngur.
Á nítjándu öld áttum vér að vísu ekki listamenn í mörgum greinum,
vér hölluðum oss mestan part að þjóðlist vorri, bókmentunum. En þá,
aungvu síður en jafnan áður í bókmentasögu vorri, voru flest skáld vor
svo mentuð sem best mátti verða á almennan mælikvarða, þau höfðu
mjög mikið vald á listrænum meðulum sínum, þarámeðal ótrúlega
þekkíngu á túngunni og leikni í meðferð hennar. 011 voru stórskáld
vor á síðustu öld sprottin úr alþýðlegum jarðvegi, þeir voru uppaldir
og mótaðir í æsku af sérstæðri innlendri þjóðmenníngu vorri alþýð-
legri, ríkri að fornri erfð, margvíslegum sagnafróðleik, ljóðlist og líf-
speki bæði heiðinni og kristinni lángt framanúr öldum; síðan hlutu
þessir menn alla þá hámentun skáldskapar og bókmenta sem hægt var
að afla sér á Norðurlöndum, heimsbókmentirnar voru þeim opinn
fjársjóður, þeir voru latínulærðir, þeir voru grískumenn, þeir voru