Tímarit Máls og menningar - 01.06.1950, Page 82
72
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
Hættu þessum gauragangi, sagði röddin. Hann Nikulás er farinn.
Hann fór til Síam-Díam.
Hvað segirðu?
Hann fór til Síam-Díam Pálmi minn. Góða nótt. Allir nælonsokkar
búnir.
Húsið brennur! öskraði Pétur Pálmason. Hringdu í slökkviliðið!
Hættu þessum látum, var sagt fyrir innan. Farðu heldur til Síam-
Díam.
Hvar í helvítinu er það?
Spurðu karlinn í tunglinu, svaraði röddin.
Pétur Pálmason leit upp fyrir sig fölur af bræði. Það logaði glatt í
þakhæðinni, gular eldtungur teygðust út um gluggana, en úlfgrár
reykur hnyklaðist án afláts í skini þeirra og hvarf út í næturmyrkrið.
Hann heyrði snark og sog. Það var augljóst að húsið mundi brenna
til kaldra kola, ef slökkviliðið yrði ekki kvatt á vettvang þegar í stað.
Neistaflugið mundi einnig kveikja í húsi Jónatans Asgeirssonar banka-
stjóra og Magnúsar H. J. Árnasonar heildsala. Síðan mundi eldurinn
læsast í timburhúsin niðurfrá og magnast svo hatrammlega að hann
yrði naumast slökktur: hverfið brynni, kannski allur bærinn, verzlanir
stæðu í björtu báli, bensínstöðvar spryngju í loft upp, seðlar og
bankabækur yrðu dust og aska. Guð minn góður! Jónatan Ásgeirsson,
sem átti meðal annars sæti í Orðuráði, hafði heilsað honum alúðlega
fyrir tveimur dögum, gengið með honum spölkorn eftir götunni, rætt
við hann um ástand og horfur í fjárhagsmálum þjóðarinnar og sagt
hvað eftir annað: Þér eruð einn af þeim fáu mönnum sem hafa
ábyrgðartilfinningu. Það voru hans óbreytt orð.
Pétur Pálmason tók viðbragð og hljóp burt frá húsinu, hljóp eins og
vitskertur eftir mannauðri götunni, en hoppaði síðan yfir girðingu til
að stytta sér leið, þeystist um sund, garða og stræti, og linnti ekki
sprettinum fyrr en hann var kominn að húsakynnum slökkviliðsins.
Honurn til mikillar undrunar voru þau harðlæst og hvergi sást ljós
í glugga fremur en annarsstaðar: Það var eins og borgin væri
dáin.
Hver stjórnar þessu! hrópaði hann og tók að berja að dyrum, þreif
jafnvel járnbút sem lá á steinstéttinni við fætur honum, og lét höggin
dynja í sífellu á rammlegri eikarhurðinni.