Tímarit Máls og menningar - 01.06.1950, Page 84
74
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
og buldi á steinstéttinni. Lögreglan, hugsaði hann og tók til fótanna,
lögreglan verður að skerast í leikinn.
Hann var orðinn undarlega máttvana í hnjáliðunum, hljóp hálf-
boginn um þögul stræti, komst lítið áfram og kiknaði við í hverju
spori, eins og hann væri að sligast undir ofþungri byrði. Hvarvetna
voru húsin myrk og hvergi neinir bílar á ferð, en þegar hann átti loks
skamma leið ófarna til lögreglustöðvarinnar þustu að honum þrír
skuggalegir náungar með stóreflis brennivínsflöskur og ráku hann inn
í sund.
Sleppið mér! æpti hann. Sleppið mér!
Þú kemst aldrei til Síam-Díam, sögðu þeir. Þú ert orðinn svo gam-
all.
Eg er að sækja lögregluna! stundi hann. Það brennur!
Við erum ungir, sögðu þeir. Við förum til Síam-Díam.
Hann reyndi að skjótast út úr sundinu, en þeir hlupu í veg fvrir
hann og veifuðu flöskunum.
Sleppið mér! Ég skipa ykkur að sleppa mér! sagði hann. Ég er að
sækja lögregluna!
Heyrðu, sögðu þeir, hvað er í pokanum þínum?
Pokanum? hváði hann forviða, en sá í sama vetfangi að hann hélt
á gráum pokaskjatta, og fann um leið að hann var ótrúlega þungur.
Bíddu við karl minn, sögðu þeir og leystu snærið frá pokanum.
Síðan tóku þeir upp úr honum íslendingasögur í skinnbandi, Passíu-
sálma, Jónspostillu, Ljóðmæli Matthíasar Jochumssonar, þjóðsagna-
safn, fornfálega biblíu sem Pétur Pálmason hafði erft þegar foreldrar
hans dóu, og loks þrílita rósavettlinga sem móðir hans hafði gefið hon-
um fyrir fjörutíu og niu árum þegar hann var fermdur.
Það setti að þeim óstöðvandi hlátur.
Hahaha! Sá er skrýtinn!
Þvínæst bundu þeir aftur fyrir pokann og snöruðu honum á bak
Pétri Pálmasyni.
Séra minn, sögðu þeir glottandi, verið þér sælir!
Hann tók enn til fótanna og hljóp út úr sundinu. Eftir skamma stund
stóð hann fyrir framan lögreglustöðina. Það logaði ljós í glugga.
Hann æddi upp nokkur steinþrep sprengmóður og ætlaði að hrinda
upp hurð varðstofunnar, en hún var þá læst.