Tímarit Máls og menningar - 01.06.1950, Qupperneq 85
BRUNI
75
Guð minn góður! sagði hann og barði og lamdi allt hvað aftók,
unz draugsleg rödd spurði fyrir innan hvaða læti þetta væru.
Húsið hans Nikulásar Nikuláss brennur! hrópaði hann.
Ég veit það, sagði röddin.
Bankastjórahúsið er í hættu!
Ég veit það, sagði röddin.
Það er kviknað í sjálfri slökkvistöðinni!
Ég veit það, sagði röddin.
Þið verðið að hjálpa okkur! Konan mín getur hrunnið inni!
Við erum að fara, sagði röddin. Við erum bara tveir eftir.
Fara? Hvert? spurði Pétur Pálmason og stirðnaði af skelfingu.
Til Síam-Díam, svaraði röddin. Vertu samferða.
Ha? Samferða? sagði Pétur Pálmason og stóð á öndinni. Til Síam-
Díam? endurtók hann eins og fáráðlingur, unz honum hafði loks skil-
izt, að þeir hefðu hvorki í hyggju að reyna að slökkva eldinn né varna
því að hann læstist í önnur hús. Svikarar! Þorparar! æpti hann og
sparkaði í hurðina. Hafið þið enga ábyrgðartilfinningu hundspottin
ykkar? Á ég að kenna ykkur að lifa? Á ég að brjóta í ykkur hvert
bein?
I sama bili voru dyrnar opnaðar.
Hann stóð andspænis tveimur beljökum í skínandi einkennisbún-
ingi, með gullsnúrur, borða og kylfur, skammbyssur í leðurhylkjum,
þungar töskur framan á kviðnum og hræðilegar grímur sem minntu á
kafara.
namurT, sögðu þeir og kinkuðu kolli hvor til annars, slitu af honum
pokann hans og fleygðu honum út í náttmyrkrið.
Konan mín, sagði Pétur Pálmason og lá við gráti, hún Guðríður
getur brunnið inni!
namurT, sögðu beljakarnir og færðust allir í aukana, þrifu í axlir
honum, stungu upp í hann kefli og smelltu á hann handjárnum.
Síðan teymdu þeir hann langa hríð um hlykkjótta rangala, þröng
sund og myrk stræti, en slengdu honum loks inn í einhverskonar
farartæki, töluðu annarlega tungu í hálfum hljóðum, báru höndina
upp að grímunni eins og hermenn, skelltu hurðinni í lás og stigu
sjálfir inn í annan klefa í farartækinu.
Pétur Pálmason heyrði suðanda í vél og tók að byltast á ýmsa vegu