Tímarit Máls og menningar - 01.06.1950, Síða 88
THOMAS MANN:
Leikhús nútímans - eðli þess og tilgangur
Leikhús nútímans á ekki heima í fílabeinsturni. Leikhús nútímans er
hagnýtt menningartæki, eitt af mörgum. Það er ekki „musteri listarinn-
ar“ eins og áður. Það er staður þar sem skal íhugað og rætt, þar sem
innt skal af hendi alvarlegt, strangt starf til að skýra tilgang þess lífs,
sem vér nútímamenn lifum.
Það sem fyrri tímar ætluðu leikhúsinu fyrst og fremst að miðla var
unun, listgleði, einkum þegar það voru tímar tiltölulega hægfara þró-
unar, er maðurinn átti sér örugga „undankomu“ frá lífinu, er lífið var
honum „mynd“, sem hægt var að skoða álengdar. Við slíkar aðstæður
verður tilhneigingin að skoða og njóta ríkjandi af sjálfu sér.
Nú á dögum er þessi örugga „undankoma“ ekki til. Vér sogumst út í
straumkast „lífsins“. Þá hneigjumst vér til að meta og skýra, bera oss
saman. Afstaða vor verður pólitísk. Ekki flokkspólitísk, en pólitísk í
þeirri víðu merkingu, að á slíkum tímum er fyrst og fremst um að ræða
„pólis“, hið þjóðfélagslega samlíf, aðlögun og árekstra skoðana, milli
manns og manns. Á slíkum tímum verður leikhúsið fremur vettvangur
baráttu en fegurðardýrkunar, fremur kryfjandi en mótandi, fremur
siðrænt en sálfræðilegt. Það mun verða leikhús upphafs og grundvöll-
unar, sem hefur meiri skyldur við efni en form.
Varðandi leikhússtarfsemi nútímans má örugglega nefna tvö atriði:
leikhúsinu ber að vinna að því að útrýma fordómum og örva til athafna.
Útrýming fordóma er í fyrsta lagi neikvæðs eðlis. Hún þýðir það að
ryðja úr vegi úreltum hugmyndakerfum, hugsunarhætti og tilfinninga-
formum. En jafnframt hefur hún annað mjög jákvætt hlutverk: að leiða
manninn (ásamt samfélaginu) fram til skilnings, skilnings á hinum
miklu umskiptum, sem nú fara fram umhverfis oss og í oss.
Að skilja er kannski eina stóra afrekið, sem vér megnum að vinna nú
á dögum á andlegu sviði. Og jafnframt hið nauðsynlegasta. Sérhver