Tímarit Máls og menningar - 01.12.1952, Qupperneq 11
BJÖRN ÞORSTEINSSON:
Gunnar Benediktsson
Það var einhvern tíma laust fyrir 1930, þegar ég var að uppgötva
veröldina í kring um mig og ásaka máttarvöldin fyrir að láta mig fæð-
ast einmitt, þegar allir atburðir höfðu gerzt og engir áttu eftir að ger-
ast, að tíðindi bárust austur í sveitir af ógurlega guðlausum klerki, sem
byggi á Saurbæ eins og Hallgrímur Pétursson forðum. Þessi frétt ork-
aði talsvert á hugmyndaflug mitt, því að hversdagsleikinn var svo yfir-
þyrmandi í afskekktu hverfi austur í Holtum á þessum árum. Eg hafði
heyrt getið um mörg og merkileg fyrirbæri: eldgos, styrjaldir, hafísa,
útilegumenn og drauga, sem nú voru úr sögunni, en aldrei heyrt minnzt
á guðlausan prest. Hann varð mér því allhugstæður um stund, og ég
reyndi að komast að því, í hverju villa hans væri fólgin, en fólk var
tregt til að fræða mig um slíkt. Ég komst þó á snoðir um, að hann
leyfði sér að bera brigður á ritningarnar og að Kristur væri rétt feðr-
aður. Þetta þóttu mér stórkostleg tíðindi, og í rauninni var hér um að
ræða fyrsta stóratburðinn í lífi mínu, sem færði mér heim sanninn um,
að skapanornirnar hefðu ekki af einskærri stríðni vakið mig til lífsins
á ómerkilegu tímabili í lítilsverðu héraði. Mér var ekkert í nöp við
prestinn, sem leyfði sér að vefengja faðerni frelsarans, og rosafréttin
varð meðal margs annars til þess að gera mig blendinn í trúnni löngu
innan við fermingaraldur. En það liðu mörg ár, þangað til mér varð
ljóst, að guðlausi presturinn hafði alls ekki verið guðlaus og ekki held-
ur búið á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, en hugmyndir æsku minnar um
það, að hann væri skemmtilegur og hugkvæmur náungi hafa hlotið
staðfestingu persónulegrar reynslu á síðustu árum.
Nú er Gunnar Benediktsson orðinn sextugur, því að hann er í heim-
inn borinn að Viðborði í Austur-Skaftafellssýslu 9. október 1892 og
fyrir mörgum áratugum þjóðkunnur ræðumaður og rithöfundur. Hann