Tímarit Máls og menningar - 01.12.1952, Qupperneq 42
248
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
í Síberíu, og eftir hér um bil hálftíma flug vorum við komin lítið eitt
upp fyrir 2500 metra. Ég hafði hlakkað til að sjá Úralfjöllin úr lofti,
en ég greindi ekkert nema þoku og næturmyrkur, sem nú var dottið á.
Við rorruðum í sætum okkar í djúpri dul og spurn. Félagar mínir eru
að reyna að gera sig syfjulega í framan. Sumir þeirra hafa sveigt stól-
hökin aftur og liggj a næstum upp við dogg. En þeim gengur ver að
sofa en embættismanni kommúnistanna í Peking. Ég stend upp og lít á
landabréf, sem Sophonías er að skoða. Svo geng ég til Jóhannesar, sem
hefur gefizt upp við svefninn og segi við hann nokkur hressandi orð um
mófuglinn og lítinn dreng undir háu fjalli. Svo munda ég til hægri
hendi í loftinu og segi: „Upp, upp, upp! Fram, fram, fram! Út, út, út!“
Jóhannes tekur þessu manndómslega og hlær. Að því búnu sezt ég í
sæti mitt og glotti svolítið innan í sjálfum mér og lít á hæðarmælinn.
Hann er ennþá fyrir ofan 2500.
Skúli kemur til mín og spyr: „Hvað er mælirinn hátt núna?“
„Hann er á 2540 metrum,“ svara ég.
Hann snýr aftur í sæti sitt.
Það er ágætlega lesbjart i flugvélinni, ljós uppi í loftinu og ljós yfir
hverju sæti. En það er þreytandi að lesa á flugi. Fyrir utan gluggana
er þoka og svartamyrkur, týrurnar á vængjunum eins og pínulitlir
ljósálfar, sem hlaupa með okkur úli við sjóndeildarhring. Klukkustund-
irnar drattast áfram eins og kýr kvöldsins undir grænu fjalli. Klukkan
verður átta — níu — tíu -— ellefu — hálftólf. Þá lít ég á hæðarmælinn.
Guði sé lof! Fjöðrin er byrjuð að falla, fellur hægt, en jafnt og þétt.
Þá hljótum við að vera farnir að nálgast Omsk, hugsa ég. Rússnesku
flugmennirnir höfðu þann sið að byrja að lækka flugið all-löngu áður
en þeir settust og lækkuðu sig hægt og hægt. Einhverjir í ði deligeisjen
sögðu, að það væri betra fyrir eyrun.
Skúli gengur ennþá til mín og spyr: „Hvað er mælirinn hátt núna?“
Ég svara: „Hann er farinn að lækka. Hann er á 2010 metrum og
lækkar jafnt og þétt. Við hljótum að vera komnir í námunda við
Omsk.“
„Já, ég fann þetta á eyrunum á mér,“ svarar Skúli og víkur aftur í
sæti sitt.
Rétt á eftir kemur ísleifur og spyr: „Hvað er mælirinn hár?“
Ég lít aftur á hann: „Á 1950 metrum. Við erum að nálgast Omsk.“