Tímarit Máls og menningar - 01.12.1952, Side 61
TIL VARNAR SKÁLDSKAPNUM
267
sé aldrei hægt að ákvarða eðli skáldskapar. Það er svo margt hægt að
segja um skáldskap hvað upp á móti öðru, og allt rétt. Maður gæti orð-
ið ærður í öllum þeim orðaflaumi. Efnið er of sleipt, það skreppur úr
greip manns. Ef til vill er aðeins hægt að tala um skáldskap í negasjón-
um.
A) Vanlielgun íslenzkrar Ijóðhefðar.
Hin gamla skáldskaparhefð, stuðlar, rím, er ungum skáldum ef til
vill meira umhugsunarefni en þeir sem fjargviðrast mest út af van-
helgun þeirra á íslenzkri ljóðlist vilja vera láta. Og einkanlega er þeim
óleyst viðfangsefni hvort — og að hve miklu leyti — beri að hafna
þessari hefð, eins og kemur meðal annars í ljós af því að flest nota þau
að einhverju leyti hið gamla form. Andúð þeirra á því er ekki eintóm
léttúð og virðingarleysi. Gæti ekki frekar verið að þessi andúð sé
sprottin af alvöru og virðingu fyrir skáldskapnum? Ég hef séð þess
getið um finnska Ijóðlist að hið hefðbundna fastmótaða form hennar
hafi svo mjög verið orðið skáldunum fjötur um fót í upphafi þessarar
aldar að lá við borð kyrking ljóðsins. Sama má segja um franska ljóð-
list á fyrri hluta 19. aldar. Þegar svo er komið verður náttúrlega form-
bylting. Þegar formið er storknað, hlýtur alltaf að verða bylting eða
að öðrum kosti dauði. Þetta liggur svo í augum uppi að ekki ætti að
þurfa að eyða mörgum orðum að því. Mönnum standa til boða ótal
dæmi þess í öllum listgreinum frá öllum tímum. I íslenzkum bókmennt-
um eru dróttkvæðin og rímurnar beztu dæmin um storknað form. ís-
lenzk ljóðhefð hefur að vísu aldrei verið eins þröng og þrælbundin og
sú finnska mun hafa verið orðin, og íslenzkar bragreglur eru að mörgu
leyti frjálsari og skynsamlegri — ef hægt er að tala um skynsemi í þess-
um efnum — en franskar bragreglur, og ég viðurkenni það glaður að
við höfum átt nokkra ágæta endurnýjara innan takmarka þessarar hefð-
ar seinasta mannsaldur. En við höfum ekki þessi þrjátíu ár borið okkar
hlut úr býtum í hinum ævintýralegu landvinningum evrópskrar ljóð-
listar, né heldur hefur íslenzk ljóðlist haldið til jafns við íslenzka skáld-
sögu á þessu tímabili. Ef til vill er hér aðeins enn ein sönnun þess að
„ísland á sinn eigin tíma“ sem ekki þarf að vera sama og „ísland er
alltaf aftur úr,“ en sjálfsagt getur síðari setningin oft staðizt. Þróun