Tímarit Máls og menningar - 01.03.1954, Qupperneq 17
HALLDÓR KILJAN LAXNESS:
Heima og heiman
„Utannorðurlandamenn"
Eitt til marks um hversu mjög vér íslendíngar virðumst vera að slitna
úr teingslum við Norðurlönd er það, að eftir að vér höfum talað um
lönd þessi daglega í þúsund ár eða meira, vöknum vér upp við það einn
góðan veðurdag að vér vitum ekki leingur hvað þau heita, kunnum ekki
að nefna þau.
Einsog allir vita hefur aldrei tíðkast í íslensku máli að skeyta greini
við staðanöfn eða landa — þó náttúrlega geti altaf vakist upp blaðamenn
eða málfræðíngar sem sanni að slíkt hafi verið gert í einhverjum afdal
í Noregi í kríngum Krists burð. A síðustu áratugum hafa menn farið að
tala um Bandaríki Norðurameríku sem Bandaríkin, og er þá í raun réttri
ekki átt við stað, heldur hefur land þetta óvart tekið heiti af stjórnar-
farslegu skipulagi ríkja í Norðurameríku. Afturámóti hefur staglið á
„Bandaríkjunum“ hér orðið til þess að íslendíngar hafa gleymt hvað
Norðurlönd heita. Á síðustu mánuðum má heita viðburður ef blöð vor
eða útvarp nefna Skandínavíu framar Norðurlönd, heldur ævinlega ým-
ist „norðurlöndin" eða „hin norðurlöndin“ eða „öll norðurlöndin“. Mér
er ekki ljóst hvort spekíngar þeir er fundið hafa þessa visku ætlast til að
svona fleirtöluorð með greini sé skrifað með stórum staf eða ekki, og
væri fróðlegt að fá einhverjar vísbendingar af þeirra hálfu um það.
Að baki þessari afkáralegu nafngift á Norðurlöndum virðist sú hug-
mynd standa, að úrþví einhver norðurlönd eru „hin norðurlöndin“, héð-
an séð, þá sé ísland norðurland nr. 1, Danmörk er þá t. d. norðurland
nr. 2, Noregur norðurland nr. 3 osfrv. En nú er sá hængur á, þegar farið
er að tala um hin og öll norðurlönd með greini, þá liggur samkvæmt ís-
lenskum málskilníngi í því að hér sé átt við öll lönd jarðkrínglunnar sem
liggja til norðurs, Svo sem t. d. Grænland, norðurhluta Kanada, Alaska,