Tímarit Máls og menningar - 01.03.1954, Side 18
8
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
Síberíu, þ. e. a. s. öll hugsanleg norðlæg lönd önnur en þau sem á ís-
lensku heita Norðurlönd, — þó hin síðastnefndu fái kanski að fljóta með
legu sinnar vegna, a. m. k. sum þeirra. Æskilegt væri að upphafsmenn
þessarar nýlundu vildu gera einhversstaðar grein fyrir þeirri einkenni-
legu Iandafræði og málfræði sem þeir hafa haft í huga þegar þeir smíð-
uðu þessi skrýtilegu orðatiltæki.
Sú staðreynd, að vér erum altíeinu orðnir svo fjarlægir Norðurlönd-
um að vér kunnum ekki leingur að nefna þau, birtist mér altíeinu heldur
en ekki áþreifanlega í fyrra á ferðalagi um Norðurlönd. Eg var að
gánga innum vegabréfseftirlit dönsku landamæranna á leið til Svíþjóð-
ar. Þar voru tvær dyr, stóð yfir öðrum: norðurlandamenn, yfir hinum:
utannorðurlandamenn. Ég ætlaði hiklaust og heilabrotalaust að gánga
um norðurlandadyrnar, en þar fóru allir skoðunarlaust í gegn, meðþví
eftirlit vegabréfa er úr gildi numið meðal ríkja þeirra innbyrðis sem
teljast til Norðurlanda. Við dyrnar stendur embættismaður og spyr:
Eruð þér svíi? Ég svara að ég sé íslendíngur. Þá eruð þér ekki heldur
norðurlandabúi, segir embættismaðurinn, — gerið svo vel að fara um
hinar dyrnar og sýna vegabréf yðar! í þeim svifum fóru finnar í gegn
skoðunarlaust sem norðurlandabúar, en ég varð að taka stimpil í mitt
vegabréf sem utanskandínavíumaður ásamt með nokkrum spánverjum
og frökkum.
Ég forvitnaðist síðan um það hjá fróðum mönnum, af hverjum sökum
íslendíngar væru ekki haldnir norðurlandabúar á Norðurlöndum. Mér
var svarað því til að íslendíngar hefðu neitað að gánga í samband við
Norðurlönd um afnám vegabréfaskyldu. Ég spurði með hverjum rökum,
og var sagt að mörlandinn hefði borið það fyrir sig á sameiginlegum
fundi norrænna utanríkisráðherra um málið, að ísland væri svo auðugt
að íbúar þess veigruðu sér við að hleypa fólki af Norðurlöndum vega-
bréfslausu inní slíkt gósenland.
Ég sel ekki sögu þessa um hlægilega íslenzka röksemdafærslu dýrar
en ég keypti. Eitt er víst, hún er alveg í íslenskum nútímastíl. Það er
alveg eftir öðrum uppskafníngshætti hjá oss, að þegar vér ræðum við
hinar gamalgrónu og sterkríku frændþjóðir vorar á Norðurlöndum, þá
reynum vér að koma því inn hjá þeim, að vér séum svo ríkir að vér get-
um ekki tekið á móti fátækum aumíngjum af „hinum norðurlöndunum"
vegabréfalausum.