Tímarit Máls og menningar - 01.03.1954, Qupperneq 30
20
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
danir gegn kröfunni um erlenda hersetu, uns íslenskur almenníngur var
orðinn nógu viss í sinni sök til að taka framfyrir hendur á stjórnmála-
mönnum og segja: aldrei með okkar vilja.
Góðum taugum sínum eiga danir það að þakka að þeir eru enn sjálf-
stæð þjóð, og njóta þeirrar virðíngar, einnig af frumkvöðlum kalda
stríðsins, sem vér íslendíngar höfum mist, — því þeir virða þá eina sem
ekki beygja sig fyrir þeim, leppa sína fyrirlíta þeir. Danir hafa haldið
virðíngu sinni, vér höfum glatað henni. Hið eina sjálfstæði sem nú er til
á íslandi er í hjörtum þeirra manna sem fyrirlíta alla vígamenn, hvort
heldur þeir klæðast einkennisbúníngum soldáta eða böðla, og eru ekki
hræddir við nokkra þjóð, heldur vinir allra þjóða. hvort heldur þær eiga
heima í austri, vestri, norðri eða suðri, en láta aldrei blekkjast af þeim
kenníngum stjórnmálamanna að mannkynið vilji stríð gegn sjálfu sér.
Ræða haldin við móttöku bókmentaheiðurspeníngs Heimsfriðarráðsins,
Vínarborg 27. nóvember 1953.
Frú forseti,
félagsmenn Heimsfriðarráðs,
kæru vinir;
sjaldan hafa tíðindi komið mér svo mjög á óvart sem þá er mér barst
skeyti heim til íslands, eigi als fyrir laungu, þess efnis að Heimsfriðar-
ráðið hefði gert að ég skyldi í flokki þeirra manna sem Ráðið vildi
heiðra með veitíngu bókmentaverðlauna sinna. Um leið og ég flyt hér nú
persónulegar þakkir mínar frammi fyrir Heimsráðinu vegna þessarar
sérstöku heiðursviðurkenníngar, vildi ég einnig leyfa mér að þakka þá
kurteisi sem með þessum gerníngi hefur verið vottaður þjóð þeirri,
túngu og bókmentum þaðan sem ég er upprunninn.
Þetta er í sannleika mjög fátíð ákvörðun.
Að vísu hefur land mitt átt sér bókmentir í þúsund ár eða jafnvel
leingur, menníng þess hefur einkum verið bókmentaleg; í þessu landi
hefur verið snúinn einn höfuðþáttur heimsbókmentanna, sá sem kendur
er við eddu og sögu; og vegna þessa grundvallar hafa fróðir menn kall-
að land mitt höfuðból sígildra fornbókmenta norðurevrópskra; og á sér-
hverri öld síðan land þetta var bygt hafa þar lifað höfundar sem ekki