Tímarit Máls og menningar - 01.03.1954, Side 85
VOLAÐS VERA
7S
Og nú leika þeir fyrir hann opus 35 eftir Richard Strauss: „Don
Quixote“.
Hann hlustar. Honum lætur vel að hlusta. Takið gleymist. Það er
kannske öðru fremur af því hann liggur kyrr. Og hlustar. Maður getur
gleymt kvölum við að heyra tónlist. Endurminning getur á sama hátt
orðið sterkari hverri þjáningu.— En um það bil sem hinztu ómar tón-
verksins um farandriddarann hugumstóra ná eyrum listamannsins í
auðninni, skynjar hann það, að fyrir utan gluggann er stillilogn. Eða
hafa eyru hans sljófgazt við vopnagný kappans? Nei. Það er komið
logn. Ekkert hljóð heyrist lengur.
Þrátt fyrir kuldaskjálfta gerir maðurinn tilraun til að rísa upp við
dogg. Hann teygir sig fram á borð undir gluggakistu, kreppir dofna
fingur og mynnist við hélaðan gluggann. Hann andar hlýju á glerið.
Það kemur agnarsmátt gat, og hann skyggnist út.
Og þar lítur hann loksins þá sjón, sem hann hefur beðið eftir síðan
hann kom á þennan stað: Hvít dalslétta fram undan í silfurskini tungls-
og blikandi stjarna. Stillilogn. Og upp af sléttunni fjallið þar sem það
rís, jökulhvítt, ekki lengur eins og ógnþrungin holskefla, heldur tigið
og voldugt, bústaður þeirrar fegurðar, sem hann hefur svo lengi þráð
að mega tjá.
Hann kennir til í öllum líkamanum, hverri einustu taug; og í sálinni.
Nú vildi hann vera heill heilsu og geta málað, ekki skugga, heldur ljós,
tunglsljós, og fjall, og himin með stjörnum. En svona er það: Þegar
viljinn er fyrir hendi kemur alltaf eitthvað til þess að grípa fram fyrir
hendur manns. Það er ýmist kuldi landsins eða fólksins. Ýmist eru
hlutir ógnþrungnir ellegar tiginbornir ofar mannlegum skilningi. Einnig
hvort tveggja. Og listamaðurinn skreiðist aftur niður undir, lokar aug-
unum og dregur upp yfir höfuð; án þess að vita að fætur hans standa
fram undan sænginni. Hann finnur það ekki. Þeir eru kaldir; eins og
á manni sem hefur orðið úti.
Reykjavík, apríl 1951.