Tímarit Máls og menningar - 01.03.1954, Side 92
82
TÍMARIT MÁLS OG MENNINGAR
loka bæði augum og eyrum fyrir ósköpunum, sem á dynja. Eða eins og
Grímur Thomsen komst svo haglega að orði:
... I fornöldinni
fastur ég tóri
í nútíðinni
nátt-tröll ég slóri....
Á þennan hátt getur menningin liðið undir lok. Stefna hennar var of
fast mótuð, of sterk til að taka við nýrri reynslu. Ef til vill er rangt að
tala um styrkleika í þessu sambandi. Sitt er hvað styrkleiki og ein-
strengingsháttur. Sú menning er hins vegar sterk, sem býr yfir vissum
sveigjanleika og getur þanizt út, án þess að missa form sitt. En það er
hér sem annars staðar, að vandratað er meðalhófið og stutt öfganna á
milli. Tilgangslaust er að fárast yfir orðnum hlut; raunveruleikinn
hörfar ekki undan bölbænum. Eina úrræði menningarinnar, vilji hún
lífi halda, er að laga sig að, gera upp reikninga sína og hreiðra um sig
í nýju jafnvægi.
Ég hef af ásettu ráði gengið fram hjá þeim möguleika, að menning
geti liðazt sundur vegna stefnuleysis. Slíkt er að vísu ekki útilokað, og
þess eru dæmi, að þjóðir eða þjóðabrot hafi smám saman gleymt fornri
menningu sinni og tekið upp menningu nábúa sinna (acculturation).
Hverri þjóð, sem á sterka og rótgróna menningu, er þó mest stolt í að
varðveita hefðina, arfleifðina. Slíkt er nauðsynlegt að einhverju leyti,
þó að það geti einnig orðið menningunni til falls, eins og reynt var að
benda á. Tryggðin við hefðina á sér dýpri rætur og raunverulegri en
stoltið eitt. Skulum við nú athuga þær aðeins.
Persónuleiki hvers manns er til orðinn fyrir samverknað eðlisgerðar
og umhverfis. Umhverfið setur manninum ákveðin takmörk, bendir
honum á leiðir, en þvergirðir aðrar. Eðlisgerðin, upplagið, revnir
einnig að hagga til umhverfinu og sverfa af því sárustu hornin. En
umhverfi mannsins er flókið, tvíþætt; annar þáttur þess er samfélagið.
— Þegar barnið fæðist, opnar það augun í ákveðnu samfélagi manna;
af því á það að læra; eftir því á það að laga sig. Börnin alast því upp
til tiltekinnar menningar, þar sem þegar eru til reglur um allt líferni,
um allt mat fegurðar og raunveruleika. Samvizkan er ekki meðfædd
náðargjöf eins og lengi vel var álitið. Hún fær innihald sitt frá þjóð-