Tímarit Máls og menningar - 01.07.1957, Page 47
TVÆR VETRARMYNDIR
una munu standa í lausu sambandi
við aðalefni kvæðisins. í þessari til-
vísun til konunnar felst eins konar
persónuleg játning, sem er svipaðs
eðlis og síðar kom fram í mansöngv-
um rímna.
Hin brotin úr Norðursetudrápu
Sveins eru veður- og sævarlýsingar
og hljóða á þessa leið:
Þá er élreifar ófu
Ægis dætr ok tættu
föls við frost of alnar
fjallgarðs rokur harffar.
Tóku fyrst at fjúka
Fomjóts synir ljótir.
Hlés dætr á við blésu.
Fyrsta brotið er lýsing á græn-
lenzkri stórhríð, og næstu brotin eru
einnig um hamfarir hinnar norð-
lægu náttúru. Hér má taka saman á
þessa leið: „Þá er harðar rokur föls
fjallgarðs ófu ok tættu élreifar Ægis
dætr (bylgjur) of alnar við frost.“
Þetta er eftirminnileg vetrarmynd:
harðir jöklastormar vefa og tæta í
sundur hinar éljaglöðu dætur Ægis,
bylgjurnar, sem hafa alizt upp á
frosti. í hinum brotunum kveður við
svipaðan tón: „Ijótir synir Fornjóts
(vindarnir) tóku fyrst at fjúka“, og
„dætr Ægis blésu á skipið“. Þessi
brot virðast benda til þess, að skáld-
ið sé að yrkja um sjóferð. Ef til vill
hafa þeir Sveinn og félagar hans ver-
ið seinir fyrir að halda suður frá
Norðursetu um haust og fengið því
að kynnast hinni grænlenzku veður-
hörku á leiðinni þaðan.
Tilviljun hefur ráðið því, hver brot
hafa varðveitzt úr kvæði Sveins, og
tilgangslaust er að reyna að ráða í svo
miklar eyður. Þó mun vera óhætt að
gera ráð fyrir því, að Sveinn hafi ort
mörg tilbrigði út af síendurteknu
stefi í drápunni: vetrarhörkunni í
Norðursetu. Hann hefur því beitt
margvíslegum myndum og líkingum
til að lýsa þessari reynslu. Ósjálfrátt
hvarflar að manni, hvort ekki sé
runnin úr Norðursetudrápu vísa sú,
sem höfundur Fóstbræðra sögu end-
ursegir til að lýsa vetramótt á Vest-
fjörðum: Gó elris hundur alla þá nótt
óþrotnum kjöptum og tögg allar jarð-
ir með grimmum kuldatönnum. Þótt
nýgjörvingar hljómi undarlega í ó-
bundnu máli, þá hefur fyrirmynd
þessarar lýsingar vafalaust verið svip-
mikil vísa. í henni kemur fram frum-
stæður kraftur, sem er einkenni á
Norðursetudrápu Sveins, eins og við
þekkjum hana af litlum brotum. Og
Sveinn er ekki ólíklegur til að hafa
sagt, að frost og fjúk kveði helgaldra,
eins og komizt var að orði í hinni
vetrarmyndinni, sem hér hefur verið
spjallað um.
125