Tímarit Máls og menningar - 01.03.1979, Side 117
íslendingasögur og Hugsvinnsmál
Þótt þessum þýðingum beri ekki saman um einstök orð (þræta: senna;
málrófsmenn: hvassorða hali; málróf: málskálp; speki: hyggja), þá er ein-
sætt að þessar tvær íslenzku þýðingar eru líkari hvor annarri en hinni
latnesku, enda má segja að hinir íslenzku meistarar sýni hliðstæð frávik
frá frumgerðinni. Setningunni „þótt satt vitir“ er skotið inn til skýringar
og viðbótar í Hugsvinnsmálum, en að öðru leyti svipar báðum þýðingun-
um mjög saman. Hér eins og annars staðar í fornum ritum íslenzkum er
neikvæður boðháttur (noli með nafnhætti) þýddur „hirð eigi“ með nafn-
hætti aðalsagnar. Síðari setningin er miklum mun einfaldari að hugsun í
latnesku gerðinni en í hinum íslenzku: „Mál er öllum gefið, en vizka and-
ans fáum“ verður magnaðra á íslenzku einkum af tveim ástæðum. I fyrsta
lagi er notað niðrandi hugtak (málróf, málskálp) í stað hlutlauss orðs
(sermo), og skerpir það andstæðuna við hyggju eða speki, og hins vegar
er andstæðan „mörgum“ gegn „fáum“ skáldlegri en í latínunni, þar sem
„öllum“ (cunctis) er teflt gegn „fáum“ (paucis). Islenzku gerðunum ber
því ekki einungis saman um mikilvæg atriði, heldur má segja að í þeim
komi fram ný túlkun á siðfræðilegri merkingu hins latneska spakmælis.
Hvernig var þessi einfalda latneska setning þýdd á íslenzku í þann mund
sem Ari fróði, ungur piltur vestan frá Helgafelli, settist á skólabekk í
Haukadal?
Hvað ungur nemur, gamall temur, segir í fornu spakmæli, og engan
þarf að undra, þótt slíkur boðskapur í versum Catós ráðgjafa hafi komizt
inn í verk þeirra menntamanna, sem fengust við að skrifa sögur eftir að
skólanámi lauk. Fjórði kafli Grettis sögu lýsir afrekum og ævintýrum
Önundar tréfóts í Suðureyjum, en þar mætir hann víkingunum Vígbjóð og
Vestmari, sem skopast að honum fyrir orrustu: „Tröll hafi Tréfót allan,“
segja þeir, „tröllin steypi þeim öllum. Og er það fáséð, að þeir menn fari
til orrustu, er ekki mega sér.“ En úrslitin urðu þó á þá lund, að Önundur
hinn einfætti ber sigur af hólmi, og eftir að hann hefur sært annan vík-
inginn til ólífis og hrakið hinn á flótta, kveður hann vísu, þar sem hann
hermir orð Hugsvinnsmála: ,JS/ieir er mörgum ... málskálp lagið ... en
hyggjandi.“ Hér eins og víðar í sögunum, þegar farið er með almenn
sannindi, er gerandinn óákveðinn, en að öðru leyti lýsir vísan viðureign
Önundar við víkinga. Mér er ekki kunnugt um, að orðið „málskálp“ komi
annars staðar fyrir í fornu máli en í Hugsvinnsmálum og þessari vísu
Grettlu. Nú hagar svo skemmtilega til, að Bjarnar saga Hítdælakappa
bergmálar orðtak Staffræðinnar og beitir þá orðinu „málróf“, sem virðist
107