Tímarit Máls og menningar - 01.07.1980, Blaðsíða 12
Tímarit Máls og menningar
en kom sinni ár vel fyrir borð. Óþarft er að rekja hér átökin um „Ólafslögin“
svonefndu sem voru almenningi að ýmsu leyti mjög óhagstæð og höfðu í för
með sér einhver mestu átök sem orðið hafa innan núverandi miðstjórnar
Alþýðusambandsins. Þar með var kominn alvarlegur brestur í samstarf þessara
flokka, bæði innan Alþýðusambandsins og í rikisstjórn. Þeim átökum lyktaði
með því að kratar hlupu fyrirvaralaust út úr ríkisstjórn frá mörgum málum
óloknum, málum sem vörðuðu rétdndi verkafólks, svo sem eftirlaun aldraðra,
vinnuvernd, réttindi sjómanna o.fl. Allt voru þetta mál sem verkalýðshreyfingin
hafði fjallað um og var mikið í mun að fá afgreidd sem lög. Kratar mynduðu
síðan stjórn með tilstyrk Sjálfstæðisflokksins og sátu fram yfir kosningar.
Fylgisaukning Framsóknarflokksins í kosningunum 1979 var bein afleiðing
af ósamkomulagi „verkalýðsflokkanna“. Almenningur hafði vænst þess að þeir
ynnu saman af heilindum, sem þeir ekki gerðu og misstu því traust hans,
töpuðu báðir. Kratarnir stefndu augsýnilega að nýrri viðreisnarstjórn, en náðu
ekki þeim þingstyrk sem til þess þurfti. Þeim var ómögulegt að fara í sams konar
ríkisstjórn og þeir höfðu hlaupið úr, svo þeir sitja eftir með sárt ennið. Þegar allt
virtist komið í strand með myndun ríkisstjórnar lék Gunnar Thoroddsen sinn
stóra leik og launaði flokksmönnum sínum lambið gráa.
Þetta er því fjórða ríkisstjórnin sem nú er við völd á þessu fjögurra ára
kjörtímabili miðstjórnar Alþýðusambandsins. Það hefur verið mjög róstusamt á
þessu tímabili í stjórnmálum landsins og verkalýðshreyfmgin hefur sannarlega
mátt hafa sig alla við. Hún hefur stutt ríkisstjórnir til að ná fram hagsmuna-
málum verkafólks með lagasetningu, átt hlut að því að fella sér óvinveitta
ríkisstjórn, og sú ríkisstjórn sem nú situr á vissulega líf sitt undir verkalýðs-
hreyfingunni komið. Þetta veit Vinnuveitendasambandið og þess vegna hefur
það til þessa neitað öllum samningum, og Sjálfstæðisflokkurinn kyndir auð-
vitað undir.
Utgerðarmenn og frystihúsaeigendur beita verkafólki ennþá einu sinni fyrir
sig til að ná fram bættri aðstöðu, sem kemur sérstaklega illa niður á konum. Svo
gæti farið að mælirinn yrði senn fullur og konur risu upp og létu ekki bjóða sér
lengur að vera varavinnuafl. Enda þótt mörgum sé vörn í allt að þriggja mánaða
uppsagnarfresti hafa frystihúsaeigendur í hendi sinni með svokölluðum kaup-
tryggingarsamningi að senda konur heim með viku fyrirvara vegna „hráefnis-
skorts“. I þessum hráefnisskorti hafa skipin legið við bryggju með fullfermi, t.d.
á Siglufirði, og beðið eftir löndunarleyfum erlendis. Það er ekki nema von þótt
formaður Vöku á Siglufirði kasti því fram hvort karlinn í tunglinu sé farinn að
stjórna sjávarútvegi Islendinga. Konur verða umfram allt að rísa gegn því að
138