Tímarit Máls og menningar - 01.07.1980, Síða 14
Þórður Hjartarson
í landlegu
Þegar við vorum búnir að ganga frá bátnum eftir fyrsta túrinn kom upp
vandamálið hvað við ættum að gera við tímann um kvöldið. Það var
eitthvað grútleiðinlegt í sjónvarpinu, það höfðaði að minnsta kosti ekki
til okkar táninganna. Vignir, sem þekkti þetta allt saman betur en ég,
sagði:
„Komdu upp í sjoppu og fáum okkur pulsu.“
Eg var ekkert svangur en til að geta eitthvað gert við tímann sam-
þykkti ég það strax. Við örkuðum því upp í bæ. Þar var ekkert um að
vera, bókstaflega ekki neitt sem gat drepið tímann hjá sautján ára
töffurum. Það voru fáir á ferli, enginn á fylleríi, engin biljardstofa né
spilakassar, ekkert bíó, engin mótorhjól né bensínþyrstir drekar.
Það var tekið strikið beint að einu félagsmiðstöð bæjarins, sem opin
var fyrir aðkomumenn, þ. e. Kaupfélagssjoppunni. Þetta var nýleg
bygging, troðfull af gallabuxnatöffurum undir tvítugt. Ég sá það strax að
þeir voru flestir ungir sjómenn sem voru allir í vandræðum með að eyða
tímanum. Viggi splæsti og á meðan hann var að bíða eftir afgreiðslu gafst
mér gott næði til að virða strákana fyrir mér. Þeir voru allir stæltir og
útiteknir. Þeir stóðu saman tveir eða þrír í hóp. Einu samskiptin milli
hópanna voru aflatölur, annars ræddu hóparnir sín mál og skiptu sér
ekkert af hinum hópunum. Eg komst að því seinna að þessir litlu hópar
voru menn af sömu áhöfninni. Það er nefnilega svo skrýtið, sérstaklega ef
um sjómenn á svipuðum aldri er að ræða, að í landi heldur áhöfnin alltaf
hópinn eins og frekast er kostur. Þeir geta rifist um borð, argað hver á
annan og látið meiðyrðin ganga allan daginn, en í landi standa þeir saman
og halda hópinn.
Þetta atferli minnir helst á hegðun brúkunarhrossa sem eru í eigu sama
bóndans. Þegar bóndi fer ríðandi á einhver mannamót, göngur eða réttir
og sleppir klárum sínum lausum í girðingu hjá ókunnum hrossum þá
halda hestarnir frá hverjum bæ hópinn og híma oftast tveir eða þrír í
140