Tímarit Máls og menningar - 01.07.1980, Page 84
Tímarit Má/s og menningar
sextugur til við að skrifa sjálfsævisögu sína, Iverum, sem kom út í tveim bindum
árið 1941. Þessu riti var þegar skipað í flokk með merkustu ævisögum íslenskum
og gekk Þórbergur Þórðarson á undan með góðu fordæmi og sagði þá meðal
annars: „Ævisaga Theódórs er átakanleg skjalfesting á stórbrotnu lífsstríði
fátæks fjölskyldumanns og hinu kaldrifjaða, miskunnarlausa umhverfi, sem
þetta lífsstríð er háð í, og það er þessi styrjöld sem gefur bók hans sérstaklega
gildi“ (Einum kennt, öðrumbent, 160).
Lýsing Þórbergs vísar okkur beint á þá staðreynd, að ef nokkur maður á að
heita öreigaskáld á Islandi þá er það Theódór Friðriksson. Það er að sönnu ekki
víst að hann falli inn í mjög þrönga fræðilega formúlu um slíka höfunda, en hún
kallar þann mann öreigaskáld sem er óskólagenginn alþýðumaður en skrifar um
ævikjör sín og sinna líka eins og lærður marxisti. Slíkir menn munu hvort eð er
vandfundnir. Nema hvað': Theódór Friðriksson var alinn upp við allsleysi og
strit, baslaði sjálfur á eymdarkotum og í vondum sjóbúðarhjöllum, var af fátækt
sinni til þess dæmdur lengst af ævinnar að vera á sífelldum þeytingi um allt land
i leit að vinnu i solli og slori í Bolungarvík, á Suðurnesjum, í Vestmannaeyjum.
Hann er rithöfundur farandverkafólksins sem svo er kallað nú þegar obbinn af
landsmönnum hefur loks fengið fasta búsetu. Fjölskyldulíf hans er allt i skugga
þessara löngu og tiðu fjarvista — og á sextugsaldri skilur Theódór við konu
sína, en þau hafa þá misst tvær uppkomnar dætur sínar úr berklum. Og þá
kemur átakanlega skýrt fram hve rýr arfur öreigans er: aleiga Theódórs er þá
„rúmið mitt, ofurlítill bókaskápur, lítið borð sem ég hafði stundum skrifað við
og einn stóll“ (/verum, 683). En hvað sem líður allsleysi, slori og striti tekst
Theódóri Friðrikssyni að setja saman nokkrar bækur. Nokkrar skáldsögur sem
verða honum sjálfum mjög mikils virði, eins og síðar verður að vikið, en eru nú
gleymdar. Meðan I verum lifir allgóðu lífi, var lesin í útvarp fyrir skömmu og
kom út í annarri útgáfu 1977. Hvað veldur því, annað en það að Theódór
hefur blátt áfram meiri rithöfundarreynslu að baki þegar hann tekur til við /
verum? Við skulum ekki gleyma því að þær skáldsögur sem hann skrifaði eftir
ævisöguna eru líka gleymdar flestum. Hvað gerist þegar íslenskur öreigi breytir
lifsstríði sinu i bækur — annarsvegar í skáldsögur, hinsvegar í ódulbúna ævi-
sögu ?
III
Ekki þarf lengi að lesa bækur Theódórs Friðrikssonar saman til að komast að
því, að skáldsögur hans og smásögur eru unnar beint upp úr atvikum sem hann
206