Tímarit Máls og menningar - 01.07.1980, Síða 88
Tímarit Máls og menningar
mjög farin að láta á sjá, en að hún vildi hvorki sjá né heyra manninn sem vera
mundi faðir að barninu“ (161).
Meira er það ekki: nema þegar aðrir sjá ekki til skreiðist Theódór á fætur og
brennir öll bréfin frá Karitas. Það verður fátt um það ráðið af textanum, að
henni gleymir hann aldrei. Þessi æskuást er honum allar götur síðan mjög
hugleikin, eins og glöggt má sjá af sögum hans. Hvað eftir annað er hann að
leika sér að þessu dæmi: ástin sem brást. í Dagsbrún lætur hann staðgengil sinn
missa æskuástina úr sótt. í Grímu verður heitkonan unga illum keppinaut að
bráð: hann hræðir úr henni lífið og staðgengill Theódórs hefnir sín á íslenska
vísu og ræður illvirkjanum bana í slagsmálum. Oftar er Theódór þó að láta sína
menn í sögunum mæta sama andstreymi og hann sjálfur: æskuástin sló í barn
með öðrum. Stundum hefnir hinn vonsvikni sín þá með fádæma göfug-
mennsku, eins og Hrólfur sem í samnefndri sögu fórnar lífi sínu til að ná í
ljósmóður í miklu fárviðri handa elskunni sinni, sem er að fæða annars manns
barn með þrautum (Brot). En stundum vinnur staðgengill höfundar konuna
aftur frá eljara sínum eins og þegar Dagbjartur nær Margréti aftur í Lokadegi.
Kveikjan að öllum þeim skáldsagnaátökum er semsagt afgreidd í örfáum
sparsömum orðum („ég sneri mér til veggjar“) — og svo í pílagrímsferð út í
Flatey mörgum áratugum síðar þegar roskinn maður er aftur einn í heiminum:
„Þarna hafði ung stúlka eitt sinn setið uppi i rúmi sínu að næturlagi og
skrifað heit ástarbréf við kertaljós, meðan hríðin hamaðist á þekjunni og aðrir
sváfu. Þetta hafði orðið eins og þegar uppsprettulind rennur út í sand, og var
ekkert hægt um það að sakast, eins og allt var komið“ (/ verum, 697).
Svipuð feimni og sparsemi stýra penna Theódórs einnig þegar hann segir frá
sínum fögnuði í ástum. Þegar hann lýsir tilhugalífi þeirra Sigurlaugar, sem hann
svo giftist, vill hann helst reka forvitinn lesanda á dyr með útúrsnúningum:
„Unnum við oft saman úti langt fram á kvöld og sagði hún mér margt úr
Skagafirði. Inn í þetta komu svo ýmsir þættir hárómantískir og fram úr hófi
viðkvæmir“ (183). Ekki meira um það, minn kæri! Lengst kemst hann í
játningum um þessi efni þegar hann segir:
„Er við riðum upp frá Hvammi norður Leirdalsheiði á heimleið yndislega
nótt, áðum við litla stund og létum hestana bíta og hvíla sig. Lóan söng og
spóinn vall, og ilmaði af hverju laufblaði. Þarna kom okkur saman um að eiga
saman gleðina og sorgina það sem eftir væri lífsins. Við vorum ung og hraust og
viðkvæm, en áttum litla fyrirhyggju“ (185).
Theódór nær í ævisögunni stundum eftirminnilegum árangri í því að harka
af sér bæði gleði og harma, eins og þegar hann skoðar ör eftir handarmein, rifjar
210