Tímarit Máls og menningar - 01.07.1980, Qupperneq 110
Tímarit Máls og menningar
svefngengill sem fór á fætur á nóttinni til að ónýta það sem hann hafði
gert í vöku, og margir aðrir sem ekki voru alveg eins langt leiddir. Mitt í
þessum gauragangi, sem svipaði til jarðskjálfta, voru Pelayo og Elísenda
þreytt en hamingjusöm, vegna þess að á tæpri viku höfðu þau fyllt
svefnherbergin í húsi sínu af peningum, og enn var biðröð pílagrímanna
sem biðu eftir að komast inn svo löng að hún náði út fyrir sjóndeildar-
hringinn.
Engillinn var sá eini sem engan þátt tók í þessum viðburðum, sem
hann átti þó sök á. Hann eyddi tímanum í að reyna að koma sér sem best
fyrir í þessu hreiðri sem hann hafði fengið lánað, og hafði mikil óþægindi
af vítishita oliulampanna og kertanna sem komið hafði verið fyrir á
vírnetinu. í fyrstu var reynt að fá hann til að borða kamfóruglös, sem
nágrannakonan vitra hafði fyrir satt að væri aðalfæða engla. En hann virti
þau ekki viðlits, fremur en hann gerði sér að góðu þær páfalegu máltíðir
sem iðrandi syndarar færðu honum, og hafði þó ekki bragðað á þeim, og
aldrei fékkst úr því skorið hvort það var fyrir elli sakir eða af því að hann
var engill sem hann á endanum neitaði allri fæðu annarri en eggplöntu-
stöppu. Þolinmæðin virtist vera eina yfirnáttúrlega dyggðin sem hann var
gæddur. Einkum var hún áberandi í byrjun, þegar hænurnar kroppuðu í
hann í leit að himinbornum sníkjudýrum sem vængir hans voru fullir af,
og bæklaðir rifu af honum fjaðrirnar til að snerta með þeim meinsemdir
sínar, og jafnvel guðhræddustu menn fleygðu í hann grjóti til að hann
stæði á fætur og þeir fengju að sjá hann uppréttan. Aðeins einu sinni sást
honum bregða: það var þegar hann var brennimerktur á síðunni með
járni sem annars var notað til að merkja kálfa, og var það gert af því að
hann hafði verið hreyfingarlaus svo lengi að menn héldu hann dauðan.
Hann vaknaði upp með andfælum, bölvandi og ragnandi á sinni dular-
fullu tungu og með tárin í augunum, og blakaði vængjunum nokkrum
sinnum með þeim afleiðingum að hænsnaskíturinn og mánarykið þyrl-
uðust upp og varð af slíkur hvirfilbylur að annað eins gat ekki verið þessa
heims. Enda þótt margir héldu því fram að þessi viðbrögð hefðu ekki
stafað af reiði, heldur sársauka, var reynt upp frá því að angra hann ekki,
enda skildu flestir að aðgerðarleysi hans var ekki hetjuleg hvíld, heldur
blundandi náttúruhamfarir.
232