Tímarit Máls og menningar - 01.02.1983, Qupperneq 16
Tímarit Máls og menningar
mála hernaðarblakkanna. En eins og venja er til fylgja og með athugasemdir
um að tilboð Sovétmanna sé ófullnægjandi, að svonefnd núlllausn Reagans
forseta sé betri (en hún gerir ráð fyrir að allar SS-20 eldflaugar verði teknar
niður).
Þá þykir það að vonum merkilegur fróðleikur, að Eugene Rostow, sem
Reagan hefur reyndar vikið úr forsvari fyrir Bandaríkjamenn í afvopnunar-
viðræðum við Sovétmenn í Genf, skuli upplýsa, að í fyrra hafi samninga-
menn stórveldanna þegar komist að samkomulagi um þessi mál, sem
stjórnir þeirra hafi svo hafnað.
Eins og einatt áður eru ýmsar neikvæðar hliðar á fréttum af þessu tagi.
Reyndar sýnast meiri möguleikar á því en verið hefur um hríð, að stórveldin
nái einhverju samkomulagi um kjarnorkuvígbúnað og er það vel. En á hitt
er og að líta, að þær takmarkanir á slíkum vígbúnaði, sem eru til umræðu,
eru næsta ófullnægjandi — þær eru fráleitt hið stóra skref sem snýr
þróuninni við.
Þær orðsendingar og tillögur sem ganga á milli aðila vígbúnaðarkapp-
hlaupsins vekja meðal annars upp spurningar um áhrif þeirra friðarhreyf-
inga sem ráðið hafa miklu í fréttaheiminum undanfarin misseri. Natóvinir
hafa til dæmis þegar séð sér leik á borði og sagt: ef að Nató hefði ekki staðið
fast á hótun sinni um ný eldflaugakerfi, þá hefði Andropof aldrei tekið í mál
að skera niður birgðir af SS-20. Þessu verður svo, ef að líkum lætur svarað
með því, að þótt Andropof þurfi ekki að glíma við öflugar óháðar friðar-
hreyfingar heima hjá sér, vegna þeirrar valdaeinokunar sem hann nýtur, þá
mun einnig hann þurfa að gera nokkuð það, sem ekki er aðeins miðað við
hina lítilþægu friðarhreyfingu, sem Sovétmenn ráða ferðinni í (Heimsfriðar-
ráðið), heldur eitthvað það sem breiðari friðarhreyfingar geta tekið mark á í
kröfum sínum til aðila vígbúnaðarkapphlaupsins.
Ahrif jafn síbreytilegra og margþættra hreyfinga og friðarhreyfingar
síðustu missera eru, verða seint metin með nokkurri vissu. En áhrifin eru að
verki og þau virðast mjaka heiminum nokkuð í eftirfarandi áfangastaði: Það
verður pólitísk nauðsyn ráðamönnum í austri og vestri að sýna lit í
afvopnunarmálum. Ofrjóar deilur um skiptingu ábyrgðar milli risaveldanna
víkja fyrir auknum áherslum á sjálfvirkni vígbúnaðarkapphlaupsins sem
höfuðvígi að rífa niður. Og að lokum: það verður æ erfiðara að halda til
streitu þeirri bábilju undanfarinna áratuga, að til að afvopnast þurfi menn
fyrst að vígbúast enn rækilegar.
6