Tímarit Máls og menningar - 01.02.1983, Blaðsíða 64
Tímarit Máls og menningar
pappírsflækjur þvældust á mölinni sem fékk á sig öskuhaugasvip.
Þeir gleymdu sér við kastkeppnina og hrukku ekki upp fyrren
mótshaldarar og íþróttamenn komu hlaupandi í átt til þeirra með
skömmum og formælingum. Hver hefur leyft ykkur þetta? Pörupilt-
ar! Skemmdarvargar! Glímukóngur úr Eyjafirðinum hrinti Badda
svo harkalega að hann skall á höfuðið og hruflaði sig og reif til blóðs
á kinninni. Aðrir gripu Grjóna með fantabrögðum, hann stympaðist
á móti og að lokum tókst honum að bíta í fingurinn á einhverjum
nefndarformanni frá íþróttaráði Reykjavíkur.
Opin og fyrirgangurinn vöktu athygli Hreggviðs sem sestur var á
bekkinn hjá fyllibyttunum, hann kom skálmandi út að kasthringnum
og þegar hann sá hvað um var að vera tvístraði hann mótshöldurum í
allar áttir, lagði hendurnar yfir axlir strákanna og spurði hvern
djöfullinn það ætti að þýða að ráðast svona með ofbeldi á unglingana.
Blóðið fossaði úr fingri nefndarformannsins, einhver tók þvældan
klósettpappír uppúr mölinni og bauðst til að vefja um puttann.
Reiðilegur maður í æfingagalla hélt ennþá í Grjóna, sem reif sig
lausan og kýldi olnboganum í andlit mannsins. Rifrildið og hama-
gangurinn magnaðist aftur, hendur bentu á pappírsvöðlið og háværar
raddir kvörtuðu undan óuppdregnum braggalýð. Undir verndar-
væng heljarmennisins voru strákarnir til í allt. Baddi sagði eyfirska
glímukappanum að ríða ömmu sinni og Grjóni sló hattinn af litlum
frakkaklæddum manni sem var svo æstur að hann var farinn að blána
í framan, yfir öll lætin drundi þrumuraust Hreggviðs sem tilkynnti
að sér væri að mæta ef einhver dirfðist að leggja hendur á þessa vini
sína og til að leggja áherslu á það hóf hann litla frakkaklædda
manninn á loft og fleygði honum út í þvöguna.
Þegar allt var að sjóða uppúr kom Tommi gamli á vettvang, hann
hafði orðið var við lætin úr búðinni sinni og ákvað að stilla til friðar.
Hann gekk inní hópinn, leit í augu nokkurra manna og talaði lágt
svo að allir þurftu að þagna til að heyra hvað hann sagði, það voru
örfá orð um markmið og gildi íþrótta og félagsstarfs, einhverjir áttu
að hafa vit á því að æsa sig ekki yfir smámunum, þið tínið þetta upp
strákar mínir og svo er það gleymt, Tommi sagði fáein orð prívat við
Hreggvið sem varð ljúfur einsog lamb, strákarnir voru fljótir að rusla
saman pappírsdraslinu og eftir andartak var allt orðið svo rólegt að
enginn hefði getað hækkað röddina eða æst sig án þess að gera sig að
54