Tímarit Máls og menningar - 01.02.1983, Blaðsíða 65
Hringsól um braggahverfið
fífli. Tommi kvaddi og fór aftur niðrí búð að sortera appelsínur og
hlusta á finnska harmonikkusnillinginn Hakkaralænen og rólegheitin
á vellinum voru slík að allir keyftu Vísi af Grjóna einsog ekkert væri,
meira að segja nefndarformaðurinn sem var svo handlama eftir bitið
að hann þurfti á hjálp að halda við að ná krónu uppúr jakkavasanum.
★
Svo fór Hreggviður út í kasthringinn, gerði sig grimmdarlegan á
svipinn og hnoðaði kúluna í lúkunum. Hann var búinn að lofa
strákunum heimsmeti. Hann stóð kyrr í hringnum, steig fram á
vinstri fótinn og með hægrihandarsveiflu grýtti hann kúlunni í átt til
fánans. Það voru ekki stælar og tilburðir í Hreggviði, ekkert með að
setja kúluna undir kjálkann og hoppa og snúast, heldur var einsog
hann stæði í fjöruborði og kastaði steinum í öldurnar.
Kúlan lenti með dynkjum langt fyrir aftan fánana. Rúmir fimmtán
metrar. Með illilegri grettu steig kappinn fram úr hringnum til að
gera kastið ógilt. Hann kinkaði kolli til strákanna og náði í kúluna.
Svo gekk hann með hana í risavaxinni lúkunni hálfhring um völlinn,
staðnæmdist um stund hjá fylliröftunum, gaf þeim öllum sígarettur
úr Pall Mall-pakka sem hann dró uppúr brjóstvasanum, að launum
fékk hann langan stóran slurk úr sprittglasi.
Svo var hann aftur kominn í kasthringinn, hann horfði
hatursaugnaráði á fánana tvo, svo grýtti hann kúlunni með
bjarndýrsöskri. En alltof stutt. Nú átti hann eitt kast eftir. Kallarnir
stungu saman nefjum, — nú er minn maður orðinn reiður, þá er hann
bestur, síðasta kastið hans er alltaf lengst. — Hreggi gæti verið orðinn
norðurlandameistari ef það væri ekki alltaf þessi óregla á honum. —
Og svo er hann náttúrlega öryrki maðurinn, sagði einhver í tvíræðum
tón og allir glottu kindarlega.
Hreggviður þrammaði þungbúinn um völlinn og vóg kúluna í
höndum sér. Honum dvaldist um stund við blámálaðan skúr sem var
við vallarendann, skúrinn gegndi í senn hlutverki áhaldageymslu,
búningsklefa og félagsheimilis knattspyrnufélagsins Kára.
— Nú er hann að fá sér brjóstbirtu, eitthvað hjartastyrkjandi,
sögðu kallarnir og gáfu hverjir öðrum olbogaskot meðan Hreggviður
snuddaði eitthvað við skúrdyrnar. Svo gekk kappinn hröðum skref-
55