Tímarit Máls og menningar - 01.02.1983, Page 105
„ . . . þetta er skdldsaga
glæta kemst að.“ (39) En ætli það sé ekki fremur hitt sem hefði getað
verið konunum sameiginlegt sem veldur heilabrotum sögukonu, til
dæmis sambúð eða hjónaband, barneign og móðurást. Hún segir Sölu að
sig langi „bara að skoða mig um og njóta lífsins“ (40) og hún hefur
hvorki mann né börn í eftirdragi. En kona þessi er sérkennilega ein-
sömul í sögunni og það er að sjá sem tilvera hennar sé engu síður
tilbreytingarsnauð en líf Sölu: „Það var ekkert sérstakt í fréttum og
veðurskeytin nauða-ómerkileg, sama tuggan og undanfarna daga. Eða
þá að ég tók ekki eftir breytingum. At snarl, drakk kaffi, reykti. Alveg
eins og hina dagana." (7) Sögukonunni virðist vera ljóst hversu lítið hún
hefur gefið af sjálfri sér, enda finnur hún að það vantaði eitthvað í Góðu
Bókina; „ég held það hafi verið þetta, sem lætur fóstrið blása út í
móðurkviði . . . “ (10) Og ef til vill eiga þær það þá sameiginlegt að hún
er ofurseld eigin heimi rétt eins og Sala var læst í lífshlutverki sínu.
Eftir stendur sú staðreynd að yfirleitt „fer þetta nú svona“, þ.e. oftast
lendir fólk í tygjum saman, stofnar til sambúðar, og býsna oft kýs það að
eignast börn sem það þá að hluta til lifir fyrir. Með það í huga ætti að
læra af reynslu Salóme, í baráttu fyrir jafnrétti kynja og þar með
réttlátara lífi, í breyttu þjóðfélagi þar sem konur eiga ekki að þurfa að
sitja heima umluktar „eilífum, endalausum snjó.“ — Þetta er þó ekki
dregið af neinni einhlítri túlkun á verkinu, enda er sem þessi fáláta saga
biðji um að láta ekki „negla sig fasta“. Ekki vegna þess að höfundur hafi
ekki sínar ákveðnu skoðanir — lesandi hefur t.d. aðgang að þeim í
ritgerð Jakobínu, „Þér konur“ (Konur skrifa, 1980) — heldur vegna þess
að sem „opið“ verk veitir þessi saga manni kröftugt tilefni til hug-
leiðinga, spurninga, á köflum efasemda og vonandi oft umræðna, en allt
þetta er nauðsynlegt í kvenfrelsisbaráttu dagsins.
Ekki veit ég hvort útlegging mín bendir til að verkið heyri til
svonefndra „kvennabókmennta“; ég efast raunar um að höfundur skrifi
undir slíkum formerkjum. En mér þykir undarlegt hversu litla eftirtekt í
slíku samhengi þær tvær bækur hafa vakið sem mér hafa þótt örva einna
mest til hugleiðinga um stöðu kvenna og kvenfrelsisbaráttu af verkum
síðustu ára, en þá á ég við þessa bók Jakobínu og fyrrnefnt Turnleikhús
Thors Vilhjálmssonar. Getur verið að til að vekja athygli af slíku tagi
þurfi bækur að ríghalda sér við hefðbundna „endurspeglun raunveru-
leikans", og helst að skilja ekkert eftir fyrir lesandann að hugsa til enda,
ekkert holrúm handa honum til að athafna sig?
95