Tímarit Máls og menningar - 01.12.1984, Síða 8
Tímarit Máls og menningar
Þau urðu örlög saudosismans að hann varð tilfinningasemi og væmni að
bráð. Sömu örlög hljóta aðrar stefnur, jafnvel harðsoðnasta raunsæisstefna
lýkur ævinni í leikhúsum þar sem öreigalýðurinn er farðaður „á réttan hátt“
af faglærðum mönnum í að elska hann. Eðli þjóða er þannig, og þess vegna
er rétt andlit þeirra fremur að finna í væmni þeirra en vitsmunum.
Angurværð og þrá aldamótanna vöktu uppreisnarkennd í brjósti portú-
gölsku þjóðarinnar, um áratugaskeið var hún í stöðugum byltingarham.
Skáldin kveiktu það sem kallað er „eldmóður" í brjósti aflanna sem standa
við þröskuld valdhafanna og eru ákveðin að hertaka hallir þeirra og hreiðra
þar um sig. Og almenningur sem á ekkert nema hina eilífu von og hefur
engu að tapa, hann fylgir, þótt hann sé ekki haldinn sérstökum eldmóði
heldur óljósri þrá og heiftinni sem hið snauða líf vekur í brjósti fátæklings-
ins.
Það var þess vegna að árið 1910 var gerð bylting í Portúgal og með henni
lauk völdum Bragansafjölskyldunnar, uppreisnarmenn útrýmdu henni bók-
staflega, til þess að öruggt væri að hún sneri aldrei aftur á valdastól.
Ljóðlist Pascoais vakti að miklu leyti sælulandsþrána, henni fylgir líkam-
legt ofbeldi og grimmd, og honum fylgdu ótal lærisveinar, miklu háværari
en hann sem hvarf stöðugt inn í gullnari aftanmóðu en lærisveinarnir
gusuðust niður í lífsins táradal í ljóðrænni sjálfsupphafningu uns Salazar tók
við öngþveitinu og völdum. Þá sannaðist það að betra er að hafa guðina á
himnum en geta séð þá í heimalandinu.
Lýðveldisstjórn tók við af konungsættinni, en brátt varð frelsið og
lýðræðið að vettvangi hugmyndafræði af ýmsu tagi sem fann engan farveg
til framtíðarinnar og fylltist lýjandi og letjandi mótsögnum bæði á hinu
andlega og efnahagssviðinu. Jafn skjótt hófust hinir sígildu efnahagsörðug-
leikar sem leiða til nýs ófrelsis.
Byltingunni hafði verið tekið með jafn miklum fögnuði og almenningur
reyndist síðan vera ófær um að leysa þjóðarvandann, en um stund blómgað-
ist andlegt líf í landinu, einkum á sviði bókmennta og tónlistar. I raun varð
landið um árabil aldingarður fegurðar, lista og löngunar til að lifa
mannsæmandi lífi sem hinar ytri aðstæður eins og heimsstyrjöldin fyrri og
innri rök og lögmál, vangeta við að horfast í augu við veruleikann fremur en
óskhyggju og drauma, gerðu að ófrjórri formstefnu kirkju, kreddu og
fátæktar í lokin.
Auk hinna almennu hræringa sem frelsið vekur gætti dýpri átaka á sviði
menningarinnar, og þá á bókmenntasviðinu, í þremur tímaritum sem stofn-
uð voru hvert á fætur öðru. Hið fyrsta var Örninn árið 1910 og aðstandend-
ur þess kváðu það vera málsvara allra sem hygðust taka þátt í endurreisn
þjóðarinnar. Endurreisnin átti að fara fram með „lúsítönskum hætti“ en
478