Tímarit Máls og menningar - 01.12.1984, Page 46
Tímarit Máls og menningar
hefðinni liggur brotið bara einhvers staðar í gleymsku. Síðasta skáldsaga
Pires er lögreglusaga sem kom út 1982, hlaut heimsfrægð og verðlaun og
heitir Balada na praia dos caes (Ballaðan á hundaströndinni). Hún fjallar um
leynilögregluna á tímum einræðisins. Það er verið að kvikmynda hana.
Bessa Luis er einhvern veginn víðfeðmust af skáldum samtímans. Hugur
hennar er sprottinn af spænsk-portúgölsku hugarfari. Hún er spænsk í
móðurættina. Og þaðan hefur hún kraftinn, það sem við köllum hið
frumstæða eyðandi-skapandi afl, óttaleysið við blinduna. Það að ganga í
myrkri skerpir athyglisgáfuna og líf mannsins. Maðurinn er fráleitt ljósvera
á öllum sviðum. En hið reikula, ljóðræna og draumsýnina hefur hún þegið í
arf frá hinum portúgalska anda.
Angi af hinu spænsk-portúgalska afli er auðsær í lok sögunnar sem birtist
hér, Unnustinn, þegar hann stendur andspænis borginni að morgni, tær
andspænis óhreinindunum á morgni lífsins og ástarinnar. Vert er að gefa því
gaum hvað hinn íberski andi er áþekkur hinum germanska, hvað hugljóm-
unin er svipuð og staðfestingin. I honum gægist eitthvað fram aftur úr
forneskju, eitthvað sem sloppið hefur við ögun hins latneska anda. Unnust-
inn er óbugandi og ástfanginn einstaklingur, albúinn að takast á við lífið. Og
frá þessu er sagt væmnislaust. Það flýgur aldrei að skáldkonunni að feta
örlítið í fótspor kynsystra sinna í skáldsagnagerð. Hún er hún sjálf: samkyn
skáldskaparins.
Bessa Luis hefur skrifað fjölda skáldsagna og smásagna. Ef hún á eitthvað
skylt við skáldskap annarra kvenna þá finnst mér ýmsu svipa saman hjá
henni og Karen Blixen. En kannski er það einkenni mikilla skálda að í
verkum þeirra er einhvers staðar blær þjóðsögunnar þótt þau fjalli um
nakinn nútímann og þá kannski sem klámmynd.
A sibila (Völvan) er þekktasta verk Bessu, eflaust vegna þess hvað það er
aðgengilegt og í jákvæðri mótsögn við hefðirnar í skáldskap. Efnið er ábyrg
stjórnarandstaða. Og er hún ekki raunverulega æðsta tegund af afturhalds-
semi, meiri en stjórnarstefnan sjálf hverju sinni? Hjá Bessu gleymist allt í
ástríðuþunga stílsins.
P. S. Eftir að þetta er skrifað hefur úrval mitt verið stytt líklega um
þriðjung, en ég hef ekki talið ástæðu til að umrita þessa grein í samræmi við
það, þótt ég hafi fellt úr henni umsagnir um hinar brottfelldu sögur.
516