Tímarit Máls og menningar - 01.02.1985, Page 26
Tímarit Máls og menningar
manna höfðu sérstöðu að því leyd að lagt var meira fé til höfuðs þeim en
annarra. Það voru þeir sem höfðu vegið víg á alþingi, þeir sem höfðu brennt
menn inni, þrælar sem höfðu vegið að húsbændum sínum eða börnum
þeirra, og loks „morð vargr sa er menn heffr myrða.“29 Morð voru sjaldnast
til nokkurs gagns fyrir höfðingja (þótt sumir þeirra ættu til að beita þeim til
að losna við óbilgjarna nágranna), og þau gátu auðveldlega orðið ógnun við
samfélagið, ekki síst í strjálbyggðu og fjöllóttu landi þar sem fólk lifði á
kvikfjárrækt. Þar urðu menn að vera mikið einir á ferð, og þá var háskalega
auðvelt að sitja fyrir þeim og drepa þá á laun. Gegn þessari hættu snerist
samfélagið með eindreginni fordæmingu á leynilegum manndrápum. Þau
voru gerð að andstæðu víga, merki um allt annað en hetjuskap.
V.
A þessum forsendum er það meginniðurstaða mín að það megi skýra
dýrkun á heiðnum gildum eins og hetjudauða og hefndarskyldu af því að
þau hafi verið gagnleg hugmyndafræði fyrir ríkjandi þjóðfélagshóp í ís-
lenska þjóðveldinu. Og vel má hugsa sér að örlagatrú hafi að einhverju leyti
lifað í félagsskap við þessi gildi. Þar með er ég eiginlega kominn á leiðar-
enda. Þó má ég til með að hnýta aftan við þetta mál tveimur athugasemdum.
Önnur er sú að hetju- og ófriðardýrkun ríkir tæpast nokkurs staðar ein til
lengdar af því að hún rekst á sterkar hvatir í hverjum manni. Hún rekst á
náttúruhvöt manna til að taka líf fram yfir dauða, að minnsta kosti fyrir
sjálfan sig, sína nánustu og þá sem maður samsamar sig með. Á miðöldum
rakst hún líka á boðun kirkjunnar (við skulum ekki gleyma því) og líklega
ótta höfðingjastéttarinnar við að ófriðurinn kynni að ganga lengra en þeir
réðu við. Mér virðist alveg augljóst að oftast sé litið á ófrið sem hörmulegt
fyrirbæri, bæði í Islendingasögum og Sturlunga sögu. Taumlausa hernaðar-
dýrkun er kannski helst að finna í fjarlægum heimi fornaldarsagna.
Þannig fengu Islendingar einkennilega mótsagnakennda afstöðu til ófrið-
ar, og ég hugsa að það sé hægt að finna þessa mótsögn endurspeglast í
mörgum fornsögum okkar. Fræðimenn hafa stundum reynt að finna ein-
hverja heildarskýringu á hinum einkennilega blóma í íslenskum bók-
menntum á 13. öld. Mér dettur til dæmis í hug bókin Kaos og kærlighed
eftir Thomas Bredsdorff sem kom út á íslensku undir titlinum Ást og
öngþveiti í Islendingasögum.30 Einfaldar heildarskýringar eru auðvitað
alltaf hæpnar — séu þær ekki eitthvað enn verra —, en líklega er það ekki
verri skýring en hver önnur að sögurnar hafi verið tilraun til að tjá og skilja
þessa mótsagnakenndu afstöðu til friðar og ófriðar, lífs og dauða. En ég
þekki aðeins eina sögu sem mér finnst fjalla beinlínis um þennan vanda og
16