Tímarit Máls og menningar - 01.02.1985, Blaðsíða 90
Tímarit Mdls og menningar
Mál og menning gefið það út. Aður hafði sagan komið út í þýðingu
Vilhjálms Þ. Gíslasonar og er þar nokkuð stytt.
Þegar fyrrgreint bréf var skrifað var Fjodor Dostoévskí að snúa aftur til
manna og til bókmennta. Árið 1849, aðeins þrem árum eftir að hann vakti
mikla athygli með fyrstu skáldsögu sinni, Fátœkt fólk, var hann dæmdur í
fjögurra ára þrælkunarvinnu í Síbiríu fyrir aðild að hópi róttæklinga, sem
létu sig dreyma um afnám bændaánauðar í Rússlandi og franskættaðan
sósíalisma. 1854 hafði hann sloppið úr haldi en var tekinn í herinn austur
þar og átti illa vist. Dauði Nikulásar fyrsta 1855, fyrirbænir góðra vina og
auðmjúk bænaskjöl Dostoéfskís sjálfs til háttsettra manna og svo hins nýja
keisara, Alexanders annars, bættu hag hans smám saman — 1856 var hann
gerður að liðþjálfa í hernum og fékk leyfi til að birta verk sín á prenti, 1859
losnaði hann úr herþjónustu og fékk leyfi til að snúa aftur til Pétursborgar.
Dostoévskí var breyttur maður. Margt bendir til þess að náin kynni hans
af morðingjum og öðrum illvirkjum í Síbiríuvistinni hafi grafið undan
æskutrú hans á að mögulegt væri að bæta úr mannlegu böli með skynsam-
legum og kerfisbundnum breytingum á þjóðfélaginu. Þeim mun meir setti
hann traust sitt á þann kristindóm, sem hann hafði aldrei afneitað, ekki
heldur þegar hann var handgenginn byltingarsinnuðum guðleysingjum.
Hann taldi sig um skeið hafa villst af réttri leið — eins og söguhetja hans
Rodíon Raskolnikof gerði, þótt með öðrum hætti væri. Hugarfarsbreyting-
in kemur afar skýrt fram í frægu bréfi sem Dostoévskí skrifaði Natölju
Fonvízinu nýsloppinn úr fangabúðum árið 1854r
Ef einhver sannar það fyrir mér að sannleikann um líf okkar sé ekki að finna í
Kristi og ef sannleikann er í raun og veru ekki að finna hjá Kristi, þá kýs ég heldur að
fylgja Kristi en sannleikanum.
Og það er svipuð endurfæðing sem boðuð er í lok Glæps og refsingar,
þegar þjáningin, sem er kaupverð gæfunnar að mati Dostoévskís, sem og
kærleikur staðgengils Krists í sögunni, skækjunnar Sonju Marmeladovu,
hafa loksins brotið niður afvegaleitt stolt og sjálfsblekkingu Síbiríufangans
Raskolnikofs.
I bréfinu, sem fyrst var vitnað til, telur Dostoévskí það sér til ágætis, að
hann vilji fjalla um manngerð sem ekki hefur verið lýst áður. Fyrr og síðar
lét hann það verða mælikvarða á frumleika í verkum sjálfs sín og annarra að
þar væru fram bornar „nýskapaðar persónur“. Að því er Rodíon Raskolni-
kof varðar, þá var þegar minnst á ýmislegt sem hann og höfundur hans eiga
saman og mætti lengi við þann lista bæta. En það er ekki ástæða til að gera
mikið úr þeim skyldleika hér og nú. Hitt skiptir meiru, að í skáldsögunni
80