Tímarit Máls og menningar - 01.09.1994, Side 28
Steinunn Inga Óttarsdóttir
Maðurinn er ekki einn
gróteska í Önnu Guðbergs Bergssonar
Bókmenntafræðingurinn M. Bakhtín, einn af forsprökkum rússnesku form-
stefnunnar, ballaði um karnival, margröddun, aftignun og gróteskt mynd-
mál í bók sinni um verk franska miðaldarithöfundarins Fran^ois Rabelais
(.Rabelais and his World, 1968). Af borði Bakhtíns falla fróðleiksmolar sem
nýta má við skilning og greiningu á hinu gróteska, líkamlega og forboðna í
skáldsögunni Önnu (1969) eftir Guðberg Bergsson en Guðbergur á það m.a.
sameiginlegt með Rabelais að vera berorður um líkamann í verkum sínum.
Anna kom út árið 1969 og er ein af hinum svokölluðu Tangabókum
Guðbergs sem um þessar mundir er verið að setja á svið í Þjóðleikhúsinu.
Anna er með merkilegustu ritverkum hér á landi síðustu áratugi. Hún er
margradda, módernísk, ofurraunsæ og „ólæsileg“ samtímaskáldsaga sem
hverfist um sjálfa sig með flóknu sambandi sögumanns, höfundar og sögu-
persóna. Hún lýsir innihaldslausum samskiptum fólks, ófullnægju, stöðnun
og sífelldri endurtekningu. Flestar almennar reglur um það hvernig saga
„eigi“ að vera eru þverbrotnar í þessari bók. Vægðarlaust er flett ofan af þeirri
blekkingu skáldsögunnar að hún sé veruleiki, t.d. á þann hátt að sögupers-
ónur eru flestar meðvitaðar um að tilvist þeirra er háð valdi duttlungafulls
höfundar. Samhliða eru viðteknar hugmyndir vestrænnar menningar og
heimspeki aftignaðar kyrfilega og blasa við í allri sinni nekt; hugtök eins og
æska og elli, líf og dauði, ást og kynlíf, maðurinn og skáldskapurinn, eru höfð
að skotspæni í sögunni og verða hjákátleg og klisjukennd. Loks úir og grúir
af ýtarlegum lýsingum á líkamlegri líðan sögupersóna, allt frá blautlegum
hugsunum þeirra til harðlífis og það er á því sviði sögunnar sem fyrirbærið
gróteska stendur í miklum blóma.
Gróteska er vandskilgreind en hún tengist náið alþýðumenningu evr-
ópskra miðalda, karnivali og hlátri. Hún er óstöðug, ófullnuð, sundruð,
tvíræð og takmarkalaus, hún er umbreytt veröld sem getur bæði birst í
skáldskap og myndlist. I aðalatriðum er talið að hugtakið gróteska eigi við
um árekstur ósamrýmanlegra fyrirbæra í bókmenntunum, svo sem þegar
ýkt, ónáttúruleg eða forboðin fyrirbæri eru sett fram í raunsæjum búningi
eins og ekkert sé sjálfsagðara. Viðbrögð manna við þessu áreiti geta verið á
26
TMM 1994:3