Tímarit Máls og menningar - 01.09.1994, Qupperneq 99
Snöggvast fannst gamla manninum þetta vera sjónvarpsviðtal.
„Já, það var reyndar hálfgerð tilviljun. Sjáðu, ef ég hefði verið búinn
að láta athuga hjartað í mér eins og til stóð, ég trassaði það víst, þá
hefðum við kannski aldrei sést. En þegar ég fór var hann tekinn til við
að rannsaka hjörtun.11
„Og manstu þá hvernig hann kom þér fyrir sjónir?“
„Hann doktor Jósep Jóseps? Ég er nú hræddur um það. Hann var
allra manna hofmannlegastur, stífgreiddur og stífpressaðar buxurnar,
það hefði mátt skera með þeim hákarl. Alveg heiðursmaður. Og
sannfæringarkrafturinn ótrúlegur, ekki annað hægt en hrífast með,
hár og herðabreiður, fjarskalegur að vallarsýn. Hornspangargleraug-
un þykk og augnaráðið ýtið.“
„Fleira?“
Umhugsun: „Ja, þeir sögðu að það rigndi í nasirnar á honum. En
það fannst mér ekki mjög áberandi.“
„Þú gleymir höfuðatriðinu.“
„Höfuð, mmm, já, auðvitað! Hvernig læt ég. Hann var með vængi!
Ég gleymi þeim. Risastóra, hvítgullna vængi. Eini maðurinn sem ég
hef kynnst um dagana sem hafði vængi. Það sindraði á þá, þeir blöktu
þegar hann gekk um gólf. Afar tígulegt.“
„Já, ég veit,“ sagði álfdísin. „Fannst þér ekkert undarlegt að hann
skyldi hafa vængi?“
„Ja, þetta var nú ákaflega mikill læknir, það var ljóst. Ég held bara
að það hafi þótt eðlilegt að hann hefði vængi. Og líka þetta, þú veist
kannski, það var á allra vitorði að hann reykti hvorki né drakk
nokkurn tíma. Og svo fór hann alltaf í klukkustundar heilsubótarflug-
ferð seinnipartinn, alla virka daga. Feikilega sérstakur maður.“
„Og mikið talað um vísindi hans, var það ekki?“
„Þú getur nærri. Maðurinn hafði starfað árum saman í Ameríku-
löndum vestur, það held ég nú. Það var sagt að hann kynni fleiri vísindi
en nokkur annar. Og rannsóknirnar sem þeir höfðu stundað vestur
þar, ég skal segja þér, það var búið að sýna og sanna að þær væru
áreiðanlegri en Guð sjálfur! Og þá þótti mikið sagt. En þetta var
sannað. Áreiðanleikinn var slíkur.“
„Og var læknirinn ánægður með þig?“
Nú hnussaði gamli maðurinn.
„Hnehei. Hann tók mig strax svo föstum tökum að slíks voru fá
TMM 1994:3
97