Tímarit Máls og menningar - 01.12.1994, Page 77
„sjálfræði" segir hér það sem segja þarf. Að vera sjálfstæður er að geta ráðið
sér sjálfur, verið sjálfráður gerða sinna. Sá sem er sjálfráður gerða sinna ætlast
til þess að aðrir viðurkenni rétt hans til að nýta sér eigið sjálfræði.
Samkvæmt þessu er sjálfræðið hvort tveggja í senn innra frelsi eða sjálf-
stjórn og ytra frelsi eða sjálfstæði. Orðin „sjálfræði“, „sjálfstjórn11 og „sjálf-
stæði“ geta öll átt við innra eða ytra frelsi eða hvort tveggja í senn. í þessu
erindi mun ég ekki gera neinn skýran greinarmun á þeim, enda er höfuð-
viðfangsefni mitt hér ekki sjálfstæðið sem slíkt, heldur forsendur þess. Einnig
er álitamál hversu skarpan greinarmun eigi að gera á innra frelsi og ytra og
hvort um tvö hugtök sé að ræða eða fremur tvær hliðar sama hugtaks. Hið
innra frelsi verður þá ekki skilið nema með vísun til hins ytra og öfugt. Hið
innra sjálfstæði sem felst í getunni til að ráða sér sjálfur kallar á viðurkenn-
ingu annarra. Hið ytra sjálfstæði er fólgið í því að rétturinn til að ráða sér
sjálfur er viðurkenndur og virtur. Engu að síður blasir við að forsendur
sjálfstæðis eru ólíkar eftir því hvort haft er í huga hið innra frelsi eða hið ytra.
Forsendur hins ytra sjálfstæðis er vilji og skylda annarra til að virða og
viðurkenna sjálfstæðið. Forsendur hins innra sjálfstæðis er vilji og geta til að
standa á eigin fótum.
Hér er komið visst ófullkomið svar við spurningunni sem ég er að
hugleiða: Forsendur sjálfstæðis okkar Islendinga er vilji okkar og geta til að
ráða okkur sjálf ogvilji og skylda annarra til að virða frelsi okkar. Hvað felst
í þessu svari? Á hverju hvílir viljinn og getan til sjálfstjórnar? Og hvers vegna
skyldu aðrir viðurkenna sjálfstæðið?
í því sem á eftir kemur mun ég einkum beina sjónum mínum að fyrri lið
máls, forsendunum fýrir hinu innra sjálfstæði eða sjálfræði einstaklings og
þjóðar.
Veitum nú einu eftirtekt sem óbeint hefur komið fram í hinu ófullburða svari
mínu við spurningunni um forsendur sjálfstæðis. Forsendurnar íyrir sjálf-
stæði þjóðarinnar byggja á því að við getum hugsað þjóðina eins og eina
heild sambærilega við einstakling sem veit af sér, setur sér markmið og
hugsar sinn eigin gang á yfirvegaðan hátt. Fyrsta spurningin er þá sú hvort
þessi samlíking þjóðar og einstaklings fái staðist: Að hve miklu leyti er rétt
að bera sjálfstæði þjóðar saman við sjálfstæði einstakrar manneskju?
Þjóðin er að sjálfsögðu ekki persóna, heldur tiltekinn hópur fólks sem kemur
fram í heiminum sem ein heild með því að lifa saman kynslóð fram af
kynslóð. Sögulega séð hafa slíkar heildir lifað og dafnað öldum saman án
þess að ráða sér sjálfar í stjórnmálalegu tilliti. Gyðingar og íslendingar eru
dæmi um slíkar þjóðir. Einstaklingur getur líka með hliðstæðum hætti lifað
TMM 1994:4
75